Veiðar og rannsóknir á smokkfiski

Miðvikudaginn 01. nóvember 1995, kl. 15:29:44 (609)

1995-11-01 15:29:44# 120. lþ. 23.10 fundur 82. mál: #A veiðar og rannsóknir á smokkfiski# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur


[15:29]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. sjútvrh. fyrir greinargóð svör. Eins og kom fram hjá honum þá verður mjög víða vart við smokkfisk og þá sérstaklega í troll. Það er samt almennt álit þeirra sem hafa kynnt sér þetta að smokkfiskur sé ekki veiðanlegur með betri hætti en á króka með ljósum. Það er nokkuð undarlegt með smokkfiskinn að hann virðist sækja í ljós þó að hann veiðist helst ekki nema á nóttunni. En þannig er þetta nú samt og þeir sem að hafa náð mestum árangri hafa nýtt sér þessa tækni ásamt því að nota flottroll þegar um mikið dýpi er að ræða og hafa þá notað flottrollið yfir dagtímann.

Ég fagna því að rannsóknir hafa farið fram og að fyrirhugað sé að gera enn frekari rannsóknir. Þetta hlýtur að vera hluti af þeirri viðleitni okkar að auka þekkingu okkar á höfunum og því sem þar er nýtanlegt. Ég fagna því hversu vel ráðherra hefur tekið í það en ég held, þegar við förum að kanna þessi mál, að við höfum því miður ekki sýnt nægjanlega mikla viðleitni til þess að kanna auðæfi hafsins með öðrum hætti en þeim að láta okkar eigin skip sjá um það eða skip annarra þjóða.