Framhaldsskólar

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 10:57:18 (623)

1995-11-02 10:57:18# 120. lþ. 25.2 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[10:57]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst nefna að mér finnst það til fyrirmyndar að listi er yfir þau atriði í greinargerð frv. sem breytingar hafa verið gerðar á frá því að það var til umfjöllunar í vor.

Ég kem fram í andsvari til þess að bera fram fyrirspurn til menntmrh. Undir 14. lið þessarar upptalningar segir svo:

,,35. gr. er ný. Ákvæði greinarinnar gefa framhaldsskólum heimild til að stofna í samvinnu við sveitarfélög, faggreinafélög, stéttarfélög, atvinnurekendur og aðra hagsmuna- og áhugahópa fullorðinsfræðslumiðstöð til þess að starfrækja endurmenntunarnámskeið eða annars konar nám sem fjallað er um í 33. og 34. gr.`` Og segir síðan: ,,Verksvið þeirra fellur að mestu utan hefðubundinna verkefna framhaldsskólanna og með starfsemi þeirra er leitast við að fullnægja þörf fyrir menntun og þjálfun sem ekki er sinnt með öðrum hætti.`` Síðan segir að þetta hafi gefist vel hjá nágrönnum okkar.

Spurning mín er þessi: Hefur þessi grein og ákvæði hennar í framhaldsskólalögum áhrif á lög um starfsmenntun í atvinnulífinu? Á sínum tíma þegar sett voru lög um starfsmenntun í atvinnulífinu voru um það átök á Alþingi hvort þetta ættu að vera sérstök lög sem heyrðu undir félmrn. eins og hagsmunasamtök á vinnumarkaði lögðu mikla áherslu á eða hvort slík starfsmenntun ætti að falla undir fullorðinsfræðslu. Niðurstaðan varð þá þessi, sem mér finnst mikilvægt, að settur var á laggir sérstakur starfsmenntasjóður og sérstök lög um starfsmennun í atvinnulífinu. Ég fullyrði úr þessum ræðustóli að þessi lög og starfsmenntasjóður hafa haft mikilvægu hlutverki að gegna í endurmenntun og starfsmenntun þeirra sem eru á vinnumarkaði.

Virðulegi forseti. Spurning mín er hvort þetta ákvæði hafi einhver áhrif sem stefnumörkun í aðra átt.