Framhaldsskólar

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 12:51:22 (637)

1995-11-02 12:51:22# 120. lþ. 25.2 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[12:51]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þegar sé kominn fram mismunandi skilningur okkar hv. þm. á þessu. Það er út af fyrir sig rétt að málfræðilga séð þýðir orðið gáfur eitthvað sem mönnum er gefið og þá væntanlega gefið í vöggugjöf eða eitthvað sem mönnum er meðfætt. Ég tel hins vegar almenna málvitund fólks leggja frekar þá merkingu í orðið gáfur að það geti bæði verið meðfæddir og áunnir hæfileikar og þannig vil ég a.m.k. nálgast það hugtak sem mestu máli á að skipta í þessu efni.

En varðandi það að menn eigi eingöngu að fara í það sem þeir hafa mesta hæfileika til, þá má alveg snúa þessu við. Ég þekki reyndar menn sem rökstyðja það ágætlega. Menn eigi frekar að fara í nám á þeim sviðum þar sem þeir standi heldur höllum fæti því að þar hafi þeir meiri þörf fyrir að þroskast og efla hæfileika sína. Ef menn eru fæddir góðir stærðfræðingar og kunna þá hluti nokkuð vel er kannski ástæðulaust fyrir þá að vera að bæta meiru við sig með skólagöngu á því sviði en ef þeir eru slakir í dönsku er upplagt fyrir þá að fara í dönsku til þess að geta talað hana skammlaust þegar náminu lýkur.