Færsla grunnskólans til sveitarfélaganna

Mánudaginn 06. nóvember 1995, kl. 15:04:01 (697)

1995-11-06 15:04:01# 120. lþ. 27.1 fundur 60#B færsla grunnskólans til sveitarfélaganna# (óundirbúin fsp.), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur


[15:04]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Hér er um miklu viðameira mál að ræða en svo að unnt sé að svara öllum þessum spurningum sem lagðar voru fyrir mig á þeim skamma tíma sem við höfum hér til stefnu. Það er ljóst að markvisst hefur verið unnið að málinu frá því að lögin voru samþykkt á Alþingi 25. febr. með þeim fyrirvörum sem voru sett í þau og í samræmi við ákvæði laganna hefur verið unnið að framgangi málsins. Verkefnisstjórnin hefur unnið að málinu á undanförnum vikum og mánuðum og þrír hópar, eins og kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda. Þessir hópar og verkefnisstjórnin hafa unnið starf sitt mjög skipulega. Ég held að þau atriði séu að skýrast sem þarf að taka ákvarðanir um til þess að þau skilyrði sem Alþingi setti fyrir endanlegri gildistöku laganna og yfirflutningnum til sveitarfélaganna frá og með 1. ágúst nk., komi fram og málið verði í þeim búningi sem Alþingi ákvað að skyldi vera.

Að sjálfsögðu eru menn ekki sammála um allt eins og gengur en viðræðurnar standa yfir, allir aðilar málsins eru í þessum nefndum og eru í verkefnisstjórninni og koma að málinu og síðan þarf að lokum að taka ákvarðanir um einstök úrlausnarefni þegar þau hafa skýrst betur en nú er. Varðandi það hvort til þess komi að flytja skólana til sveitarfélaganna 1. ágúst 1996 þá hef ég ekki orðið var við neitt sjálfur sem eigi að hindra það. Þvert á móti finnst mér hugur manna standa til þess og allar viðræður og allt starfið miðar að því að þetta verði gert. En uppfylla þarf þau skilyrði sem Alþingi setti og að því er unnið og ég á von á að það muni takast í tæka tíð.