Færsla grunnskólans til sveitarfélaganna

Mánudaginn 06. nóvember 1995, kl. 15:08:01 (699)

1995-11-06 15:08:01# 120. lþ. 27.1 fundur 60#B færsla grunnskólans til sveitarfélaganna# (óundirbúin fsp.), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur


[15:08]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ef hv. þm. kynnir sér fjárlagafrv. og hvernig staðið er að fjárveitingum til grunnskólanna samkvæmt því ætti hann að átta sig á því að enginn vafi er um fjárveitingar til grunnskólans án tillits til þess hvort flutningurinn verður því þannig var staðið að öllum ákvörðunum vegna grunnskólans við gerð fjárlaganna að ekki er um neinar skerðingar að ræða og dæmið liggur mjög skýrt fyrir og er einstaklega skýrt í fjárlagafrv. Það ætti því ekki að valda neinum vandræðum að afgreiða fjárlögin fyrir áramót hvað sem líður öðrum ákvörðunum. En ég á von á því að þær verði unnt að taka á næstu vikum eins og hv. þm. orðaði það og sé enga ástæðu til að örvænta um að þetta takist ekki sem við ákváðum á þingi að skyldi gerast 1. ágúst 1996.