Neyðarlínan

Mánudaginn 06. nóvember 1995, kl. 15:20:53 (710)

1995-11-06 15:20:53# 120. lþ. 27.1 fundur 64#B Neyðarlínan# (óundirbúin fsp.), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur


[15:20]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Samkvæmt lögum sem samþykkt voru á Alþingi í febrúar er gert ráð fyrir að samræmd neyðarsímsvörun á landsvísu verði komið á fyrir áramót. Í yfirlýsingum fyrir alþingiskosningar sögðu forsvarsmenn stjórnarflokkanna að ekki stæði til að einkavæða þessa þjónustu. Hins vegar kæmi til álita að gera samstarfssamning þeirra aðila sem að neyðarþjónustu koma.

Í framhaldi af þessu vil ég spyrja hæstv. dómsmrh. hvort rétt sé að lögreglan í Reykjavík standi fyrir utan þessa þjónustu, en komi til með að verða viðtakandi símtala sem fyrirtæki í höndum einkaaðila á borð við Securitas, Vara og Sívaka vísi áfram frá sérstakri stjórnstöð. Einnig vil ég spyrja hvort það sé rétt að Slökkviliðið í Reykjavík sé að leggja niður sína svörunarþjónustu vegna þessarar einkavæðingar. Og hvað með landsbyggðina að þessu leyti? Verða sömu milligönguaðilar fyrir hana?