Tollalög

Mánudaginn 06. nóvember 1995, kl. 16:38:46 (742)

1995-11-06 16:38:46# 120. lþ. 28.6 fundur 68. mál: #A tollalög# (tollfrjálsar verslanir í höfnum) frv., Flm. GHall
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur


[16:38]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson):

Virðulegi forseti. Ég flyt frv. til laga um breytingu á tollalögum, nr. 55 frá 1987, með síðari breytingum. Auk mín eru flm. Sólveig Pétursdóttir, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Pétur H. Blöndal, Ólafur Örn Haraldsson, Arnþrúður Karlsdóttir, Einar H. Guðfinnsson, Einar Oddur Kristjánsson, Gunnlaugur M. Sigmundsson, Tómas Ingi Olrich, Valgerður Sverrisdóttir, Egill Jónsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Jón Kristjánsson, Árni Johnsen og Ísólfur Gylfi Pálmason.

Í 1. gr. segir svo:

,,1. mgr. 79. gr. laganna orðast svo:

Fjármálaráðherra er heimilt að reka eða leyfa rekstur verslana með tollfrjálsar vörur, þar á meðal áfengi og tóbak, í flugstöðvum á Reykjavíkurflugvelli, Keflavíkurflugvelli, Akureyrarflugvelli, Sauðárkróksflugvelli og Egilsstaðaflugvelli í tengslum við farþegaflutning milli landa. Heimild þessi gildir einnig um sams konar rekstur í Reykjavíkurhöfn, Ísafjarðarhöfn, Akureyrarhöfn, Seyðisfjarðarhöfn og Vestmannaeyjahöfn. Birgðir slíkra verslana má geyma í tollfrjálsum birgðageymslum sem eingöngu eru ætlaðar til þeirra nota.``

Í 2. gr. er lagt til að þessi lög öðlist þegar gildi.

Sú breyting sem flm. leggja til er sú að í núgildandi lögum er eingöngu talað um að rekstur tollfrjálsra verslana megi fara fram í flughöfnum en sú breyting sem hér er lögð til er að jafnhliða þeim lögum komi inn þessar upptöldu hafnir sem ég talaði um áðan.

Greinargerðin með frv. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,1. mgr. 79. gr. tollalaga er að finna heimild til þess að reka eða leyfa rekstur verslana með tollfrjálsar vörur í stærstu flugstöðvum landsins. Brýnt er vegna mikillar fjölgunar erlendra ferða-, fiski- og farmanna sem hafa viðkomu með skipum í ýmsum höfnum hér á landi að víkka út heimildina svo að hún nái einnig til helstu hafna landsins.

Á síðasta sumri fjölgaði mjög mikið þeim skemmtiferðaskipum sem komu til ýmissa hafna landsins, alls 115 skemmtiferðaskip, en auk þess kom Norræna 14 sinnum til Seyðisfjarðar. Til marks um þá fjölgun skemmtiferðaskipa sem til landsins koma má geta þess að árið 1992 komu 23 skip til Reykjavíkur með um 11.000 farþega og 5.000 manns í áhöfnum. Í sumar komu til Reykjavíkur 51 skip með 21.348 farþega og 10.000 manns í áhöfnum. Árið 1994 komu 23 skemmtiferðaskip til Akureyrar með um 11.000 farþega og 5.900 manns í áhöfnum. Í sumar komu til Akureyrar 38 skip með um 18.000 farþega og 10.000 manns í áhöfnum. Sem fyrr segir kom Norræna 14 sinnum til Seyðisfjarðar og með því skipi 6.438 farþegar auk þess sem þrjú önnur skemmtiferðaskip höfðu þar viðkomu. Til Vestmannaeyja komu 17 skemmtiferðaskip og sex til Ísafjarðar. Auk þess höfðu nokkur skip viðkomu í Stykkishólmi, Grundarfirði og Húsavík. Þótt ekki liggi fyrir upplýsingar um fjölda skemmtiferðaskipa sem koma til Íslands sumarið 1996 er búist við að þeim muni enn fjölga. Flest þessara skipa hafa skamma viðdvöl í höfn og því er nauðsynlegt að bæði farþegar og áhafnir þeirra hafi möguleika á að versla í tollfrjálsri verslun sem býður upp á fjölbreytt vöruúrval og er í tengslum við hafnarbakka. Enn fremur hefur aukist gífurlega sá fjöldi erlendra fiskiskipa sem leita til hafnar vegna ýmiss konar þjónustu. Það er enginn vafi á að áhafnir þeirra munu nýta sér þann möguleika sem tollfrjáls verslun býður upp á. Þannig munu slíkar tollfrjálsar verslanir auka tekjumöguleika þjóðarinnar og skapa ný atvinnutækifæri þar sem selja mætti, jafnframt erlendum varningi, hvers konar íslenskar vörur sem þá yrðu undanþegnar virðisaukaskatti. Tollfrjálsar verslanir eru víða erlendis í tengslum við hafnir og er varningur, sem keyptur er þar, ekki borinn um borð af kaupanda heldur sér viðkomandi verslun um að flytja varninginn um borð í skipið. Sá háttur mundi einnig verða hafður á hérlendis og rekstrarleyfishafi gerður ábyrgur fyrir því að rétt sé að málum staðið í hvívetna.

Af því sem að framan greinir má ljóst vera að hér gæti verið um að ræða áfanga á leið til markaðssetningar íslenskrar framleiðslu.``

Virðulegi forseti. Ég gat áðan um þá fjölgun skemmtiferðaskipa, sem hefur orðið á umliðnum árum, jafnframt því sem að ekki liggur nú endanlega ljóst fyrir hve mörg skemmtiferðaskip muni verða hér á næsta sumri en það er þó svo að venjulega í nóvembermánuði liggur það nokkuð ljóst fyrir hvaða skemmtiferðaskip muni koma til landsins á komandi ári. Nöfn þeirra eru gefin upp og hverjir séu útgerðaaðilar. Það er furðulegt að Íslendingar skuli ekki vera meira vakandi fyrir þeim möguleikum sem þarna er um að ræða. Einkum þegar þess er gætt að það hefur eftir því verið tekið á umliðnum árum að þessi skemmtiferðaskip versla ekkert hér, það er að segja það er ekkert keypt um borð. Örlítið keypt af vatni en þá er allt upptalið. Þegar þess er gætt að það liggur ljóst fyrir mörgum mánuðum áður en að skipin koma til Íslands að það skuli ekki vera meiri áhugi hjá söluaðilum landbúnaðarafurða eða annarrar íslenskrar framleiðslu um að nýta sér þær upplýsingar sem fyrir liggja fyrir áramót um hvaða skip koma, hverjir eru útgerðaraðilar, þó ekki væri annað en að senda þessum aðilum upplýsingar um verðlag og þjónustu og hvaða vörur væru hér á boðstólum. Mig hefur oft undrað að sjá þegar að þessir fólksflutningabílar eru að koma úr skemmtiferðum í nágrenni höfuðborgarinnar, og venjulega liggur þá leiðin að Gullfossi og Geysi, að engir aðilar sýna áhuga á að gefa mönnum að smakka íslenskar landbúnaðarafurðir svo mjög sem þær eru rómaðar af framleiðendum. Ég tala nú ekki um þegar ferðalangar koma svangir úr langri ferð.

[16:45]

Mér er það minnisstætt að fyrir ekki mörgum árum hafði ég samband við aðila í bændasamtökunum og benti honum á þessa leið og að þarna væri möguleiki til þess að auka sölu á íslensku lambakjöti. Það var eiginlega stutt í þeim sem ég talaði við vegna þess að hann hafði þær athugasemdir fram að færa að skipið væri að fara úr höfn og þar af leiðandi yrði líklega ekki um mikla verslun að ræða. En sá ágæti maður athugaði ekki að auðvitað má reikna með því að þeir farþegar sem kæmu um borð eftir að hafa smakkað hið ágæta íslenska lambakjöt mundu að sjálfsögðu hafa samband við bryta og spyrja hvenær væri að vænta þess að þetta góðgæti, íslenska lambakjötið, yrði á boðstólum á matseðli viðkomandi skemmtiferðaskips.

Virðulegi forseti, ég ætla ekki að hafa þessi orð mín lengri en legg til að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og efh.- og viðskn.