Landgræðsla

Þriðjudaginn 07. nóvember 1995, kl. 18:20:13 (789)

1995-11-07 18:20:13# 120. lþ. 29.15 fundur 93. mál: #A landgræðsla# (innfluttar plöntutegundir o.fl.) frv., Flm. HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur


[18:20]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það fór svolítið í verra við seinni ræðu hv. 5. þm. Norðurl. e. Hv. þm. tók upp stríðshanskann eftir að hafa haldið skemmtilega og að mörgu leyti ekki óskynsamlega tölu varðandi þingmálið og skerpti nú allmjög á einkunnagjöf. Hv. þm. bjó til flokk manna hér í stólnum sem hefðu það að hugsjón ,,að vernda land í tötrum`` eins og hv. þm. orðaði það. Hann er að búa sér til einhverja víglínu í þessum efnum. Það er fólkið sem vill vernda land í tötrum og hins vegar hinir góðu riddarar fjölbreytileikans sem vilja bæta úr og klæða landið. Það eru ekki þessar víglínur sem ég vil skerpa eða búa til. Ég vil að menn reyni að skapa hér leikreglur út frá bæði alþjóðlegum sem innlendum forsendum til að fara eftir en gleymi sér ekki í kappi eða skemmtan dægurumræðunnar að búa til fjandafylkingar. Þegar þessi mál eru til umræðu og reyndar mörg fleiri, þarf verkefni okkar hér á Alþingi Íslendinga að vera það að reyna að finna leið málamiðlunar milli sjónarmiða sem bæði geta verið gild á sinn hátt.

Það er eitt, virðulegur forseti, sem ég vil nefna hér í lokin: Þótt menn séu djarfhuga í sambandi við uppgræðslumál þá skulum við líka hafa það í huga að land okkar og umhverfi er að ýmsu leyti nokkuð hart og við getum orðið fyrir óvæntum áföllum varðandi ýmsan þann búning sem við viljum klæða landið í og m.a. einnig af þeim ástæðum er þörf á að fara að með ákveðinni gát.