Skaðabætur til bænda við Þingvallavatn

Miðvikudaginn 08. nóvember 1995, kl. 13:32:53 (795)

1995-11-08 13:32:53# 120. lþ. 30.1 fundur 37. mál: #A skaðabætur til bænda við Þingvallavatn# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi ÖS
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur


[13:32]

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Eins og kunnugt er hefur Þingvallavatn verið ótrúlega gjöfult veiðivatn í gegnum aldirnar. Fyrstu merki um veiðiskap á Íslandi hafa reyndar fundist í kumli frá ofanverðri 10. öld þar við vatnið. Það hafa jafnan verið miklar nytjar af veiði í vatninu, til að mynda átti Skálholtsstóll þar ítök og nýtti vel. Enn er þar að finna fjölmörg kenninöfn sem draga nafn sitt af veiðum Skálholtsmanna.

Vatnið er einstakt í heiminum. Þar eru fjórar gerðir af bleikju sem þekkist hvergi annars staðar, auk murtunnar. Þá var kuðungableikjan mikilvægust í veiðinni. Það var líka sterkur stofn urriða í vatninu. Stærsti stofninn átti heimkynni sín við Efra-Sogið og svo frægur varð urriðinn við Efra-Sogið að þangað sóttu menn til veiða þegar eftir miðja síðustu öld víðs vegar að úr Evrópu.

Reyndar er það svo, herra forseti, að urriðinn í Þingvallavatni var sérstaklega merkilegur. Hann var einn af örfáum upprunalegum stofnum í heiminum sem enn eru eftir sem námu land í kjölfar hopandi jökla þegar að ísöldinni slotaði. Hann býr við síðbúinn kynþroska og er einstaklega stór. Bændur við Þingvallavatn höfðu jafnan mikil hlunnindi af bleikjuveiði og lengi vel voru tekjurnar af þessari veiði einu peningarnir sem þeir höfðu handbæra. Þannig stóð þetta fram yfir miðja öldina. Veiðin stóð undir 30--60% af afkomu býlanna við Þingvallavatn.

Herra forseti. Veiðin var að stórum hluta undirstaða byggðar við vatnið. Lífríkið í þessu vatni var jafnframt ómetanlegt, það var einstakt. Árið 1959 var hins vegar gagnger breyting þegar ráðist var í virkjun Efra-Sogs og því var í bókstaflegri merkingu lokað með stíflu. Farvegurinn varð þurr, þar var hægt að ganga þurrum fótum yfir ána sem ekki var lengur til en við bygginguna varð jafnframt það slys að á þjóðhátíðardaginn 1959 brast bráðabirgðastíflan. Vatnið lækkaði á örfáum klukkustundum um hátt á annan metra. Hrannir af dauðum seiðum lágu með allri strandlengjunni og í kjölfar þessa, herra forseti, hrundi veiðin í vatninu. Hún hefur aldrei náð sér aftur. Uppistaða veiðinnar var kuðungableikja sem nærðist á kuðungum sem lifa á mjög þröngu belti meðfram strandlengjunni og murtan var líka afar mikilvæg í veiðinni. Nú er það svo að urriðinn í vatninu var ránfiskurinn á toppi fæðukeðjunnar. Hann tempraði sveiflurnar í bleikjustofninum, sérstaklega murtunni. Brottnám hans úr lífríki vatnsins gerði það að verkum að murtusveiflurnar urðu miklu meiri. Það leiddi t.d. til þess á síðasta áratug að ofvöxtur hljóp í stofninn, ofbeit varð í vatninu á þeim bithögum sem murtan gekk í og murtuveiðin hrundi vegna þess að fiskurinn var það lítill að hann smó möskva netanna.

Þess vegna spyr ég hæstv. iðnrh.: Hvaða skaðabætur hafa bændur við Þingvallavatn fengið vegna þessa hlunnindamissis og fengu þeir einhverjar sérstakar bætur vegna slyssins sem varð árið 1959 þegar bráðabirgðastíflan brast?