Skaðabætur til bænda við Þingvallavatn

Miðvikudaginn 08. nóvember 1995, kl. 13:38:42 (797)

1995-11-08 13:38:42# 120. lþ. 30.1 fundur 37. mál: #A skaðabætur til bænda við Þingvallavatn# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi ÖS
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur


[13:38]

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Hæstv. iðnrh. kannast ekki við það að bændur hafi óskað eftir bótum vegna hlunnindataps. Nú er það svo að í bókinni Dunar á eyrum, sem gefin var út 1968, er viðtal við Steingrím Jónsson, fyrrv. rafveitustjóra, þar sem hann segir að í gangi sé mat á hlunnindatapinu og í framhaldi af því muni væntanlega koma skaðabætur fyrir. Hæstv. iðnrh. staðfesti að það hafa aldrei komið neinar bætur. Bændur fengu engar bætur fyrir slysið á þjóðhátíðardaginn 1959 þegar lækkaði um hátt á annan metra í vatninu og þegar margir árgangar seiða fóru forgörðum. Þetta þykir mér stórmerkilegt, sérstaklega með tilliti til þess að iðnrh. hæstv. hefur nýlega svarað skriflegri fyrirspurn minni um stuðning Landsvirkjunar við fiskirækt á öðrum stöðum þar sem Landsvirkjun hefur verið með virkjunarframkvæmdir í gangi. Þar kemur í ljós að alls hefur stofnunin kostað til 171 millj. en bændur við Þingvallavatn hafa varla fengið nokkurn skapaðan hlut. Þó er staðreynd að það er sennilega hvergi annars staðar á Íslandi nema ef vera skyldi við Mývatn þar sem afkoma bænda var jafnháð veiðunum og einmitt við Þingvallavatn. Ég verð því að segja, herra forseti, að mér þykir skjóta mjög skökku við og ég spyr hæstv. iðnrh.: Mun hann ekki sem góður vinur bænda og félagi í Framsfl. beita sér fyrir því að bændur við Þingvallavatn nái rétti sínum um þetta?

Hæstv. iðnrh. talar um að það hafi verið sveiflur sem hann segir að séu innan við náttúrulegar sveiflur Þingvallavatns og þær kunni að hafa haft óæskileg áhrif á urriðann í Þingvallavatni. Ég er algerlega ósammála því að þær séu innan náttúrulegra sveiflna. Hins vegar er ég sammála því að þær hafi haft áhrif á urriðann í Þingvallavatni sem er merkasti urriði í heiminum vegna þess að sveiflurnar í vatninu hafa valdið því að aðrir stofnar urriða utan Efra-Sogs hafa hrunið líka, þeir fáu stofnar aðrir sem voru eftir.

Herra forseti. Þetta er ekki mál sem að snýst um peninga eða fjármuni heldur um arfleifð úr lífríkinu sem er með sínum hætti alveg jafnmikilvæg íslensku þjóðinni og sú arfleifð sem við tökum við frá forfeðrum okkar í formi menningar og sögu.