Rennslistruflanir í Soginu

Miðvikudaginn 08. nóvember 1995, kl. 13:49:54 (802)

1995-11-08 13:49:54# 120. lþ. 30.2 fundur 83. mál: #A rennslistruflanir í Soginu# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur


[13:49]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég get upplýst það við hv. þm. að ég hef rætt þessi mál við Landsvirkjun. Það er flest af því rétt sem fram kemur í máli hv. þm. Það er hins vegar svo að það er mjög nákvæmlega vitað hverjar þessar rennslisbreytingar eru. Þarna eru tilgreind 109 skipti. Þetta er oft og tíðum mjög skammur tími vegna þess að þarna er um síritun að ræða þannig að menn vita nákvæmlega á hvaða tímum sólarhrings í hversu langan tíma hverju sinni rennslið fer niður í þetta ákveðna magn. Af því ég veit að hv. þm. er sérfræðingur um kynlíf fiska, (ÖS: Og framsóknarmanna.) Það er alveg nýtt fyrir hv. þm. sem hér stendur að hv. þm. skuli vera sérfræðingur í því líka, það hef ég ekki vitað fyrr en það eru auðvitað fróðlegar upplýsingar. (ÖS: Þar eru engar rennslistruflanir.) Það eru ekki rennslistruflanir, það er rétt hjá hv. þm. Ef að það skyldi nú skipta máli á hvaða tíma sólarhrings þetta gerist og þá legg ég það í mat hv. þm. að meta það að þá var það kl. 6:50--7:35, 12 apríl 1980 að rennslið fór niður í 36,4 rúmmetrar á sek. Síðan gerist það slys aftur 1988 á öðrum tíma sólarhringsins kl. 15:30--16:30 þar sem rennslið fer niður í 35,8 rúmmetra á sekúndu.

Það verður að vera hv. þm. að meta hvaða áhrif það hafi á hvaða tíma sólarhringsins þetta gerist.