Þjónusta og kynning Egilsstaðaflugvallar

Miðvikudaginn 08. nóvember 1995, kl. 14:18:25 (814)

1995-11-08 14:18:25# 120. lþ. 30.5 fundur 121. mál: #A þjónusta og kynning Egilsstaðaflugvallar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi JónK
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur


[14:18]

Fyrirspyrjandi (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Á þskj. 134 flyt ég fyrirspurn til samgrh. um þjónustu og kynningu Egilsstaðaflugvallar. Fyrirspurnin hljóðar þannig:

1. Eru fyrirhugaðar ráðstafanir til að tryggja auknar birgðir af flugvélaeldsneyti á Egilsstaðaflugvelli til að hann þjóni hlutverki sem varavöllur í millilandaflugi?

2. Hvernig hefur verið staðið að kynningu Egilsstaðaflugvallar sem varavallar?

Það er kunnugt að mikil uppbygging á Egilsstaðaflugvelli hefur staðið yfir með það fyrir augum að hann geti þjónað sem varavöllur í millilandaflugi. Nú sér að mörgu leyti fyrir endann á þeirri uppbyggingu. Lokaframkvæmdir eru í gangi við flugstöð og ráðið hefur verið starfsfólk til vallarins þannig að þar sé hægt að setja á vaktir. Þrátt fyrir þessa myndarlegu uppbyggingu vantar herslumuninn til þess að hann geti þjónað þessu hlutverki og gildasta ástæðan er ófullnægjandi aðstaða fyrir nægjanlegar eldsneytisbirgðir á flugvellinum til að þjóna sem varavöllur fyrir stórar flugvélar.

Núverandi birgðastöð eldsneytis er illa staðsett inni á öryggissvæði flugvallarins. Þó mun vera hægt með hagræðingu að geyma 50 þús. lítra af þotueldsneyti á vellinum. Ég spyr um eldsneytismálin sérstaklega vegna þess að það er forsenda fyrir notkun vallarins sem varaflugvallar að hægt sé að tanka þar, með öðrum orðum að taka eldsneyti. Olíufélagið Skeljungur sér um þessa þjónustu á vellinum og væntanlega kemur það fram í svari hæstv. samgrh. hvort viðræður hafa farið fram við félagið um þetta efni.

Það hefur ítrekað komið fyrir að vélar hafa flogið yfir landið án þess að lenda hér ef Keflavíkurflugvöllur hefur verið lokaður en Egilsstaðaflugvöllur opinn og eru nýleg dæmi um það. Þess vegna er seinni spurningin á þá leið hvort ráðstafanir hafi verið gerðar til að kynna þessa nýju möguleika á Íslandi fyrir flugrekstraraðilum.

Það er ljóst að eldsneytismálin eru nú kannski brýnasta verkefnið. Yfirleitt er viðdvölin ekki löng þegar lent er og Keflavíkurflugvöllur er lokaður. Það er tímabundið ástand sem varir kannski ekki nema hluta úr sólarhring nema í algerum undantekningartilvikum. Og varavöllur er eins og kunnugt er til þess að hægt sé að taka eldsneyti erlendis með tilliti til þess að varavöllur sé fyrir hendi hér á landi.

Ég beini þessum tveimur spurningum til hæstv. samgrh.