Ríkisreikningur 1994

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 11:42:38 (887)

1995-11-16 11:42:38# 120. lþ. 33.6 fundur 129. mál: #A ríkisreikningur 1994# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[11:42]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var athyglisverð ræða frá fyrrv. samstarfsmanni í ríkisstjórn, formanni flokks sem fór með stóra málaflokka eins og félagsmálin og heilbrigðismálin þar sem fjmrh. sem hér stendur var í sífelldum vandræðum með útgjöld í þessum málaflokkum og þó sérstaklega í heilbrigðismálunum eins og slóðinn sýnir á undanförnum árum. Á þetta vil ég leggja áherslu og ég vil jafnframt láta það koma fram að hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson studdi a.m.k. í orði kveðnu þáv. fjmrh. í síðustu ríkisstjórn. En því miður gat hann ekki, eins og sumir aðrir, náð böndum á eigin flokksmönnum enda hélst honum illa á ráðherrum í þeirri ríkisstjórn því það voru sífellt að koma ný andlit inn í ríkisstjórnina af hálfu Alþfl. (Gripið fram í.) Sum voru fegurri en önnur, ég skal viðurkenna það, sérstaklega þau sem voru hulin að einhverju marki með skeggi eða skegghýjungi. En þetta vil ég að komi fram. Hins vegar er alveg hárrétt hjá hv. þm. að fjmrh. þarf auðvitað á stuðningi allra ráðherranna að halda, þetta er ekki verk eins manns. Það sést þegar litið er til annarra landa að á undanförnum árum hafa ríkisstjórnirnar í heilu lagi, forsætisráðherrann, fjármálaráðherrann og fremstu menn í samsteypustjórnum komið að þessum málum með þeim hætti að þeir hafa skuldbundið sig til að standa fast með yfirlýstri stefnu stjórnvalda. Það hefur núv. ríkisstjórn gert. Við eigum auðvitað eftir að sjá hver útkoman verður en ég verð að segja, virðulegi forseti, að mér kom á óvart að heyra þessi orð sem voru nokkuð digurbarkalega töluð úr þessum ræðustóli eftir þá reynslu sem ég hef haft af mönnum sem störfuðu í ríkisstjórninni úr flokki hv. þm. En ég skal endurtaka það með glöðu geði að hv. þm. studdi a.m.k. alltaf í orði kveðnu í ræðustóli á Alþingi og einnig þegar hann tók til máls í ríkisstjórninni þau sjónarmið að skera niður í ríkisfjármálunum og ég þakka honum þann stuðning þó ég geti því miður ekki þakkað öllum þeim fjölmörgu samstarfsmönnum hans þeim sem komu að þeirri sögu síðustu ríkisstjórnar af hálfu Alþfl.