Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 14:51:02 (916)

1995-11-16 14:51:02# 120. lþ. 33.11 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[14:51]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. komst að orði eitthvað á þá leið að ekki vildi hann deila á menn fyrir það sem gerst hefði í fortíðinni. Það gefur mér sérstakt tilefni til þess að beina fyrirspurn til hæstv. fjmrh. í framhaldi af ræðu hv. þm. Ég spyr hæstv. fjmrh.: Er það svo að hv. þm. Pétur Blöndal hafi verið að lýsa skoðunum og sjónarmiðum sem endurspegla stefnu og afstöðu ríkisstjórnarinnar? (PHB: Á ekki að spyrja þingmanninn að því sjálfan?) Ég heyrði hvað hv. þm. sagði, hverjar væru skoðanir hans. En nú spyr ég hæstv. fjmrh. og að gefnu tilefni: Var hv. þm. að lýsa prívatskoðunum sínum eða er hann að lýsa skoðunum að því er varðar fjármagnstekjuskatt og útfærslu hans sem endurspeglar stefnu ríkisstjórnarinnar? Ég spyr sérstaklega vegna þess að í samstarfi í fyrri ríkisstjórn var það sameiginleg niðurstaða Sjálfstfl. og Alþfl., að vísu eftir mikla eftirgangsmuni og stöðugan eftirrekstur okkar alþýðuflokksmanna, að Sjálfstfl. samþykkti að koma á fjármagnstekjuskatti og reyndar hina pólitísku nauðsyn á því að þar giltu samræmdar reglur til samræmis við það sem á við um aðra skattlagningu á öðrum tekjum.

Nú skal ég taka skýrt fram að ég er ekki endilega ósammála öllu því sem fram kom í máli hv. þm. Péturs Blöndals. Hann hefur nokkuð til síns máls að því er varðar sum þessara atriða en ekki öll. En meginatriðið er þetta: Hv. þm. er fulltrúi þingflokks Sjálfstfl. í þessari nefnd. Ber að skilja það svo að ræða hans endurspegli stefnubreytingu frá því sem áður hafði verið markað að því er varðar áformin um samræmda skattlagningu á fjármagnstekjur? Hefur ríkisstjórnin eða Sjálfstfl. söðlað þar um í þessu stjórnarsamstarfi eða eru það ágreiningsmál innan nefndarinnar sem valda því að þetta mál er ekki komið fram? Ég spyr vegna þess að þær upplýsingar sem við höfum eru þær að þessu starfi sé raunverulega lokið nema ef vera skyldi vegna pólitísks ágreinings þá annaðhvort innan stjórnarflokkanna eða milli þeirra