Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 15:17:48 (920)

1995-11-16 15:17:48# 120. lþ. 33.11 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[15:17]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Því frumvarpi sem er til umræðu er hægt að fagna út frá einu sjónarmiði. Loksins hefur hæstv. ríkisstjórn lagt fram á Alþingi pólitískt frv. sem endurspeglar að einhverju leyti stefnu hennar. Hér er fjallað um tekjuskattsstefnumörkun ríkisstjórnarinnar og þar eru nokkur atriði sem ég vil gera að umtalsefni.

Þetta er fjórða frv. ríkisstjórnarinnar sem við getum talað um að sé pólitískt en hin eru fjárlagafrv., lánsfjárlagafrv. og frv. um búvörusamning. Kjarni þeirrar stefnu, sem kemur fram í frv., er að afnema að bætur í almannatryggingakerfinu taki mið af kjarasamningum og almennum verðlagsbreytingum. Við höfum búið lengi við þetta fyrirkomulag sem var gert að umræðuefni þegar fjárlögin voru til umræðu. Þetta er vond en skýr stefna sem ríkisstjórnin kemur fram með. Þessi stefna bitnar á þeim sem minnst mega sín. Þetta bitnar á þeim sem ekki hafa tök á því að bera hönd fyrir höfuð sér. Þetta bitnar á þeim sem hafa ekki harðvítuga hagsmunahópa á bak við sig til að verja sig og sína. Hér er bæði um að ræða lækkun bóta og persónuafsláttar þannig að hér er bæði hækkun á tekjuskatti og lækkun almannabóta. Þetta eru vitaskuld svik við launþega með tilliti til þeirra kjarasamninga sem voru gerðir í vor. Þetta eru líka svik við það sem þessir flokkar sögðu fyrir kosningar. Hvorki Sjálfstfl. né Framsfl. nefndu að þetta yrðu úrræði þeirra í ríkisfjármálum. Sú stefnumörkun, sem kemur þarna fram, hefur fengið harðvítuga gagnrýni frá öllum stjórnarandstöðuflokkunum því þarna sker á milli stefnu stjórnarandstöðunnar og ríkisstjórnarinnar.

Í þessu frv. er ekki rætt um tekjuöflun vegna skattundandráttar þeirra 11--15 milljarða sem við töpum árlega. Það er engin atlaga gerð á þeim vettvangi. Nei, það er afnám viðmiðunar við verðlagshækkanir og kjarasamninga. Verðtrygging er afnumin gagnvart eldra fólki og sjúklingum á sama tíma og ríkisstjórnin kýs að hafa hinn nýja búvörusamning verðtryggðan til aldamóta. Þarna birtist enn og aftur stefna ríkisstjórnarinnar. Þarna birtist enn og aftur forgangsröðun á hinu stjórnmálalega sviði.

Í frv. eru talin upp fjögur atriði sem ber hæst á sviði skattamála. Þar er m.a. sagt að fyrirhugað sé að taka upp fjármagnstekjuskatt á næsta ári. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. nokkurra spurninga um það mál. Hvar gerir hann ráð fyrir tekjum af fjármagnstekjuskattinum? Það sér engin merki í fjárlagafrv. fyrir næsta ár um tekjur af þessum skatti. Hvað er að gerast með þennan skatt? Fregnir berast af því að Indriði Þorláksson skrifstofustjóri, sem er einn hæfasti embættismaður fjmrn., hafi verið rekinn úr nefnd þeirri sem er að vinna að málinu. Hann er hættur þar afskiptum af málinu að því er virðist vegna þess hvaða útfærslur hann leggur þarna fram. (Fjmrh.: Hann var ekki í nefndinni.) Hann vann með nefndinni, hæstv. fjmrh., eftir því sem ég best veit. Nú er þekking mín og annarra þingmanna lítil á þessu máli og krafa okkar á þingi er að fjmrh. skýri hvað þarna er að gerast. Hvenær er von á frv. frá ríkisstjórninni varðandi þetta mál? Hvernig stendur á því að embættismanni fjmrn., sem vinnur með nefndinni og hefur margoft komið að þessum málaflokki, er ekki lengur treystandi til að koma að því á þessum stað? Það er líka ljóst að við verðum að spyrja að því, hæstv. fjmrh., þegar hann leggur fram tekjuöflunarfrv. eða frv. sem breytir skattalögum, hvernig hann hugsar sér að taka á þeim málum sem eru til umræðu milli vinnuveitenda og verkalýðshreyfingar.

Við megum ekki gleyma því að við síðustu kjarasamninga greiddi ríkið á einn eða annan hátt 4 milljarða af þeim 14 sem kjarasamningarnir kostuðu. Þetta var þriðjungs niðurgreiðsla á kjarasamningum, aðferðafræði sem er að mínu mati gjörsamlega komin út yfir allt velsæmi. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvernig á að taka á kjarasamningunum nú. Það skiptir máli í sambandi við fjárlagafrv. hans og það tekjubreytingarfrv. sem hann leggur fram að nú eru viðræður í gangi milli verkalýðshreyfingarinnar og vinnuveitenda. Þær eru í launanefnd og það er ólga á þessum vígstöðvum. Þar hefur m.a. verið rætt um að fara fram á það við ríkisvaldið að stuðlað verði að lækkun matarverðs í landinu. Það er hægt að hafa langt mál um það hvernig komið var aftan að neytendum varðandi GATT-útfærsluna og má benda á að nú er búvörusamningurinn til umfjöllunar í Alþingi í hv. landbn. Samkvæmt þeim umsögnum sem borist hafa bæði frá verkalýðsfélögum, vinnuveitendum, neytendum, kaupmönnum og öllum þeim sem hafa komið að því máli, er gagnrýnin og reiðin svo mikil gagnvart landbúnaðarstefnu ríkisstjórnarinnar að ég ætla ekki að gera það hér að umtalsefni. En ég hlýt að spyrja: Ætlar hæstv. fjmrh. að beita sér fyrir því nú á næstunni að liðka til í þessum málaflokki þannig að það gæti á einhvern hátt orðið efnisatriði í þeim vandræðum sem kjaramál eru almennt um þessar stundir? Ef undið verður ofan af þeirri slæmu stefnu, sem endurspeglast bæði í GATT-útfærslunni og í búvörusamningnum, þá er hugsanlegt að hægt sé að ná einhverju landi í þeim málaflokki.

Einnig má geta þess að í frv. kemur ekkert fram hvernig á að taka á því að lækka skatta á millitekjufólki. Hvar er stefnan í þeim efnum? Vísað er í nefnd og engin stefna er uppi í þeim málaflokki. Það er nákvæmlega sama og gerist með fjármagnstekjuskattinn og það að lækka skatta á millitekjufólk. Þetta virðist vera svo flókið að það er ómögulegt að ná nokkru fram úr ríkisstjórninni um stefnumörkun á þessum vettvangi. En þegar kemur að því að taka af þeim sem fá bætur úr almannatryggingakerfinu þá þvælist ekki hin tæknilega útfærsla fyrir hæstv. ríkisstjórn. Auðvitað er hægt að spyrja hæstv. fjmrh. hvar kerfisbreytingarnar eru, hvar metnaðurinn er sem hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson auglýsti eftir áðan. Ég get svarað honum. Það er enginn metnaður í þessu. Ég bjóst ekki við neinum metnaði af hálfu stjórnarinnar. Hún endurspeglar stefnu sína með frv. en maður hlýtur samt að spyrja hæstv. fjmrh., sem stóð eitt sinn fyrir að minnsta kosti umtali varðandi kerfisbreytingar í þjóðfélaginu: Hvað dvelur orminn langa við að reyna að taka á afgerandi hátt á mörgum þáttum sem tengjast tekjuöflun ríkisins? Hæstv. fjmrh., það er ekki gert í þessu frv. og langflestar þær breytingar, sem hér er lagt upp með sem tengjast almannatryggingarkerfinu og sköttum almennings í landinu, eru allar til hins verra.