Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 15:52:31 (924)

1995-11-16 15:52:31# 120. lþ. 33.11 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[15:52]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það síðasta sem hv. þm. sagði hefði hann átt að láta ósagt því ég býst við að fyrrv. formaður í hans eigin flokki eigi metið. Það er önnur saga. Hann verður því að líta sér nær til að krýna einhvern í því sambandi.

En ég læt mér þetta í léttu rúmi liggja. Aðalatriðið er að hv. þm., sem er gamall nemandi minn og lærði ágætlega þá og meira að segja tókst mér að troða sumu í hann, virðist ekki trúa því þegar ég segi, þegar ég staðhæfi það og bendi á og get bara sagt við hann að þannig er þetta frv. að gert er ráð fyrir því að hátekjuskatturinn, þ.e. skattleysismörk hátekjuskattsins verði fryst með nákvæmlega sama hætti og er gegnumgangandi í þessu frv. Það segir meira að segja á bls. 13: ,,Gert er ráð fyrir að fjárhæðir ákvæðanna verði þær sömu og verða við álagningu sérstaks tekjuskatts á næsta ári`` o.s.frv. Það kann hins vegar að vera að sums staðar í frv. séu upphæðirnar ekki nákvæmlega eins því það getur verið að sumar upphæðirnar í frv. hafi verið á öðrum grunni vegna þess að ef sérákvæði hafa komið inn í lögin er ekki víst að þau gegni alveg sömu lögmálum því að stundum er miðað við skattvísitölu og þá getur verði að grunnurinn sé frá öðru ári. Það er því ekki hægt að taka tölurnar og færa þær upp um prósentur eins og hv. þm. gerir. Það verður að taka þær tölur sem eru notaðar við álagninguna en ekki endilega grunnfjárhæðina sem getur verið mismunandi í frv. Þetta hugsa ég að hv. þm. skilji. En ég get lofað honum því, og hann getur hins vegar ráðið því hvort hann ber á móti því aftur og aftur, að nákvæmlega sama aðferðin er notuð við hátekjuskattinn eins og almennt í þessum lögum. Það er verið að frysta mörkin en ekki að beita einhverri annarri aðferð þó að ég hugsi að ég sannfæri seint hv. þm. um að ég sé ekki bara að ráðast á þá sem minnst mega sín og hlífa þeim sem mest hafa.