Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 16:39:25 (938)

1995-11-16 16:39:25# 120. lþ. 33.11 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[16:39]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Það sem hæstv. fjmrh. sagði um fjármagnstekjuskattsnefndina var með því lakasta yfirklóri sem ég hef lengi heyrt, þ.e. að Indriði H. Þorláksson sé svo önnum kafinn og verðmætur maður að hann megi ekki vera að því að beina kröftum sínum að þessari nefnd. Það er alveg augljóst að málefnalegur ágreiningur var uppi í nefndinni. Honum er kippt út úr þessari nefnd af fjmrh. Það er í sjálfu sér ekki efni til að ræða mikið um þetta mál. Við verðum að sjá í hvað þessi fjármagnstekjuskattsumræða stefnir og þá er hægt að taka efnislega á því. En það hefði verið betra ef fjmrh. hefði viðurkennt þennan ágreining sem þarna er uppi.

Í öðru lagi virtist fjmrh. taka undir áhyggjur mínar varðandi þær verðhækkanir sem gætu komið í kjölfar umræðunnar um kjaramál. Hann nefndi landbúnaðarmál ekki sérstaklega, en ég kýs að skilja hann svo að hann sé reiðubúinn til að hugsa það mál á jákvæðan hátt, þ.e. lækkun matarverðs. Ég held að þetta sé mjög mikilvæg afstaða, ef þetta er þá afstaða fjmrh., að ríkisstjórnin komi þarna til móts við réttmæta kröfu vinnumarkaðarins varðandi of hátt matarverð, bæði hvað GATT-samning og búvörusamning snertir. Ég vil skora á hæstv. fjmrh. að endurskoða þetta frv. sem hann var að leggja hér fram. Þetta er frv. sem gengur út á að skerða bætur almannatrygginga miðað við það sem áætlað var. Þetta er vont frv. og þetta hefur ekkert með það að gera að afnema sjálfvirkni í ríkisrekstri. Þetta er tekjuöflunarleið fyrir ríkissjóð, hæstv. fjmrh., og ekkert annað. Hæstv. fjmrh. er að ná sér þarna í milljarð, en gefur hluta af því til baka. Þetta er ósanngjörn leið. Það væri innlegg til þeirrar viðkvæmu stöðu sem nú er á vinnumarkaði að hann endurmæti þetta frv., endurskoðaði þá leið sem farin er gagnvart þeim sem minnst mega sín. Væri hann maður til þess, legði hann inn veigamikið efni sem gæti komið að gagni í þeim viðræðum sem eru nú í gangi um kjaramálin.