Veiðileyfagjald

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 10:59:02 (953)

1995-11-17 10:59:02# 120. lþ. 34.9 fundur 30. mál: #A veiðileyfagjald# þál., SighB
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[10:59]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Alþfl. varð fyrstur íslenskra stjórnmálaflokka til þess að taka á stefnuskrá sína kröfu um veiðileyfagjald. Síðan eru mörg ár liðin. Þessi stefna sætti verulegri andstöðu til að byrja með en stöðugt fleiri aðilar hafa lýst yfir fylgi við hana, m.a. einn öflugasti fjölmiðill landsins, Morgunblaðið, og fylgismenn eru ekki einungis í röðum fólks utan sjávarútvegsins, utan greinarinnar. Það eru margir innan sjávarútvegsins sem hafa snúist á þá skoðun að það sé rétt og skynsamlegt að taka upp veiðileyfagjald og dæmi um það er 1. flm. þáltill. sem stóð í ræðustól, einn helsti ,,kvótaeigandi`` landsins. Það er því ljóst að það eru fleiri en alþýðuflokksmenn og stjórnmálamenn og aðilar utan sjávarútvegsins sem hafa lýst yfir stuðningi við þessa stefnu. (Gripið fram í.) Það getur vel verið að þó svo menn eigi rétt til afnota af þessari auðlind sem sameign þjóðarinnar þá geta menn verið þeirrar skoðunar, eins og 1. flm. þessarar tillögu, að það sé rétt að þjóðin njóti arðs af sinni eigin eign. Og það eru mun fleiri í röðum útvegsmanna og sjómanna en hann sammála þessari afstöðu. Stuðningur við hana eykst með hverju ári. Það er vissulega ánægjulegt að eitt af því sem hv. þm. Ágúst Einarsson tók með sér úr Alþfl. þegar hann fór þaðan í seinna skiptið skyldi vera stefna flokksins í fiskveiðimálum. Það er mjög skynsamlegt veganesti, hann hefur valið þar vel.

[11:00]

Hv. þm. flutti ýmis rök fyrir réttmæti þess að taka upp veiðileyfagjald og ég er honum algerlega sammála í þeirri röksemdafærslu. Í fyrsta lagi er þarna um að ræða réttlætismál því að það er svo kveðið á um í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða að fiskimiðin við Ísland séu sameign þjóðarinnar. Fram að þessu hefur þjóðin ekki notið arðs af þeirri eign sinni, heldur hafa þeir notið arðsins sem hafa samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða haft aðgangsrétt að þessari auðlind. Sá arður hefur verið allverulegur eins og nýleg dæmi sýna þegar íslensk útgerðarfyrirtæki sem hafa efnast vel á því að gera út á þessa sameiginlegu auðlind landsmanna hafa fjárfest og eru að fjárfesta hundruð milljóna kr. í sjávarútvegi erlendis. Það liggur því á borðinu að mjög margir sem hafa aðgang að þessari sameiginlegu auðlind þjóðarinnar hafa efnast vel á því. Við því er ekkert að segja og ekki heldur því að þessir aðilar skuli velja þann kostinn að fjárfesta í útgerðarfyrirtækjum og fiskvinnslu erlendis. En það er að sjálfsögðu mjög óeðlilegt og óæskilegt að þetta skuli gerast á sama tíma og svo virðist sem þjóðin sem á þessa auðlind njóti lítils hagræðis af eign sinni, hún nýtur ekki afgjaldsins af þeirri eign sem hún á þó lögum samkvæmt. Þau rök eru því allsendis rétt hjá hv. þm. að það er réttlætismál að taka upp veiðileyfagjald til að tryggja Íslendingum arð af þessari þjóðareign.

Það er einnig rétt hjá hv. þm. að hin mikilvægu rökin fyrir veiðileyfagjaldi eru efnahagsstjórnunarleg, þ.e. þetta er tæki til þess að draga úr sveiflum í sjávarútvegi og til þess að jafna afkomu hinna einstöku atvinnugreina á Íslandi. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um það, það gerði hv. 1. flm. ágætlega áðan. En virkasta stjórntækið í efnahagsmálum sem völ er á hjá þjóð eins og Íslendingum, sem á afkomu sína undir sjávarútvegi, er að taka upp veiðileyfagjald, eins og hv. þm. leggur til.

En það er hægt að nota veiðileyfagjaldið til margra annarra hluta. Það er t.d. mætavel hægt að nota það til þess að stjórna fiskveiðum í stað þeirrar kvótaúthlutunar sem á sér stað í dag. Það er vel hægt að hugsa sér að eftir því sem afli eykst, hækki veiðileyfagjaldið. Og þannig má nota það sem fjárhagslegt stjórntæki til þess að draga úr ofveiðum. Þegar búið er að taka hæfilegt magn úr sjónum eftir því sem stjórnvöld telja æskilegt, er hægt að stilla veiðileyfagjaldinu þannig að það sé orðið svo hátt þegar farið er að nálgast þá markalínu sem stjórnvöld draga, að ekki sé eftirsóknarvert að halda áfram útgerð miðað við það afgjald sem þyrfti þá að greiða af jaðarafla hverju sinni.

Það sem mér finnst hins vegar ekki góð latína varðandi þessa till. til þál. er að gera ráð fyrir því að fela ríkisstjórn sem er andvíg þessari stefnu að framfylgja henni. Tillagan gerir með öðrum orðum ráð fyrir því að hæstv. sjútvrh., í umboði ríkisstjórnar, semji reglur um veiðileyfagjald og tillögur um hvernig það skuli framkvæma þótt fyrir liggi að ef það er eitthvað sem hæstv. sjútvrh. getur ekki hugsað sér, þá er það að fylgja slíkri stefnu. Það er náttúrlega ekki eðlilegt að slíkum aðilum, hvað þá heldur ríkisstjórn sem öll virðist vera andstæð þeirri stefnu sem fjallað er um í þessari þáltill., sé falið það verkefni að gera tillögur um framkvæmdina. Ég hefði heldur viljað sjá slíka tillögu í frumvarpsformi frá hv. flm. og félögum hans. Ég held að það sé bráðnauðsynlegt að þeir aðilar sem hafa hug á því að koma fram veiðileyfagjaldi útfæri það í frumvarpsformi og sýni fram á hvernig þeir ætli að framkvæma hlutina, en vísi því úrlausnarefni ekki til ríkisstjórnar og ráðherra sem vitað er að ekki vilja neitt með slíka stefnu hafa og hafa verið andvígir slíkri stefnu frá upphafi. Þeir aðilar, hv. þm., sem eru andvígir því og geta ekki hugsað sér að koma nálægt hvorki stefnumótun í þessa veru, né heldur framkvæmd stefnu sem byggir á því sem till. til þál. kveður á um, eru ekki líklegir til að leysa þetta mál.