Veiðileyfagjald

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 11:43:56 (965)

1995-11-17 11:43:56# 120. lþ. 34.9 fundur 30. mál: #A veiðileyfagjald# þál., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[11:43]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega alveg fráleitt af hv. 4. þm. Vestf. að reyna að túlka orð mín svo að ég segi að þjóðin eigi ekki að hafa tekjur af meginauðlind sinni. Að sjálfsögðu hefur þjóðin tekjur af meginauðlind sinni. Annars væri þetta ekki meginauðlind hennar. Þjóðin lifir á fiskveiðum og fiskvinnslu og hefur miklar tekjur af þessari meginauðlind sinni. Þetta eru því eins og hverjir aðrir útúrsnúningar.

Mér er það mætavel ljóst að sjávarútvegsfyrirtækin mörg hver eru vel í stakk búin til þess að standa straum af afgjaldi af einhverju tagi. Spurningin er einfaldlega sú hvort það sem hér er verið að leggja til sé skynsamlegt til þess að dreifa fiskveiðiarðinum, hvort það séu ekki aðrar leiðir til þess, svo sem almennar skattaleiðir, og hvort ekki sé eðlilegra, eins og ég hef raunar alltaf verið talsmaður fyrir, að sjávarútvegurinn taki þátt í því að reka vísinda- og þróunarstarfsemi sjávarútvegsins í auknum mæli og jafnvel eftirlitsstofnanir sjávarútvegsins líka með tilsvarandi áhrifum þar á.

Hins vegar fannst mér röksemdafærsla hv. þm. varðandi virkjanirnar mjög sérkennileg. Það er auðvitað alveg út í bláinn að segja að með því að borga fyrir orkuna hjá Orkubúi Vestfjarða, þá sé maður að borga einhvers konar auðlindaskatt eða ígildi hans. Þá mætti allt eins segja að maðurinn sem fer út í búð að kaupa sér ýsuflak sé að borga auðlindaskatt. Þannig er þetta ekki. Ef talað er um að borga auðlindaskatt þá væri það auðlindaskattur af réttinum til þess að virkja en ekki gjaldgreiðsla fyrir að kaupa orku af fyrirtæki sem fær einkaleyfi til þess að selja hana á tilteknum landsvæðum.