Veiðileyfagjald

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 12:49:49 (991)

1995-11-17 12:49:49# 120. lþ. 34.9 fundur 30. mál: #A veiðileyfagjald# þál., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[12:49]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Þessi spurningaleikur minnir orðið á frægan danskan stjórnmálamann sem var spurður til hvers það mundi leiða þegar fram væru komnar tillögur hans um afnám tekjuskatts og hann svaraði: ,,Et lykkeligt Danmark.`` Það þótti nokkuð gott svar.

Hv. þm. fær ekki svör frá mér um það hvernig rétt væri og skynsamlegt að stilla af veiðileyfagjald í upphafi, og ætlast að sjálfsögðu ekki til þess. Hér er verið að flytja tillögu um að skipa nefnd í málið og mörg sjónarmið þarf að vega og meta. Það verður ekki ákvörðunarefni okkar einna. Niðurstaðan verður að sjálfsögðu málamiðlun.

En ég vil endilega leiðrétta misskilning sem kom fram í máli hv. þm. sem var sá að gert væri ráð fyrr því að veiðileyfagjaldið yrði stillt af til þess að koma í veg fyrir framsal veiðiheimilda. (EKG: Fyrir verslunina.) Fyrir verslun, já, viðskipti með veiðiheimildir. Það er alls ekki svo. Það er ekki svo í mínum huga og ég geri ekki ráð fyrir að það sé í huga flm. vegna þess að ef við erum að tala um aflamarkskerfið, þá gengur það einfaldlega ekki án framsals. Það vita allir menn. Aflamarkskerfið væri löngu dautt, það væri löngu búið að afnema það á Íslandi ef ekki væri þetta framsal. En framsalið gengur aldrei, framsalsrétturinn gengur aldrei, aldrei verður sátt um þetta kerfi nema þeir sem stunda framsalið sitji við sama borð, þ.e. að þeir hafi greitt eigandanum afnotagjald fyrir veiðiréttinn, fyrir afnotaréttinn. En hitt, að þeir séu að versla með annarra manna eigur samkvæmt þessum rétti, er þvílíkt siðleysi að það mun aldrei standast og verður aldrei sátt um það.