Samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 14:32:50 (1019)

1995-11-17 14:32:50# 120. lþ. 34.10 fundur 140. mál: #A samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana# þál., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[14:32]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. að á þessum fundi sagði ég aldrei að ég ætlaði ekki að standa við samninginn. Hafi einhver skilið það þannig þá er það mesti misskilningur. Það sem ég sagði á þessum fundi var í raun og veru að mér þætti skrýtið, og það getur vel verið að ég hafi viðhaft sterk orð um það, að menn einblíndu á undirskrift á samningi sem nauðsynlegt væri að breyta. Ég hef aldrei sagt annað en að það væri nauðsynlegt að breyta þessum samningi og ég var kominn til þess að ræða um það hvernig skynsamlegt væri að breyta þeim samningi fyrir alla aðila. Er ekki skynsamlegra að byggja hús sem nýtist strax fyrir minni peninga heldur en skila fyrsta áfanga eftir mörg ár og síðan að það verði engin not af húsinu kannski mörg ár þar á eftir? Út á það gekk þessi fundur að ég hélt. Það getur vel verið að þeir sem heimsóttu mig hafi talið að þeir gætu komið og sagt: Skrifaðirðu undir samninginn? Ætlar þú að standa við hann? Ég segi: Það getur vel verið að ég hafi orðað það þannig að ég segði: Það er ekki aðalatriði þessa máls. Aðalatriðið er að gerð sé skynsamleg breyting á fyrri áformum. Af einhverjum undarlegum ástæðum virtust þeir menn sem komu, a.m.k. einn þeirra sem hér eru í salnum, hafa einhvern sérstakan áhuga á því að koma út af þessum fundi og skýra þannig frá honum að það mætti ætla að ég hefði sagst ekki ætla að standa við samninginn. Það var aldrei sagt á þessum fundi, aldrei nokkurn tíma. Á fundinum voru líka embættismenn ráðuneytisins og þeir vita nákvæmlega hvað fór fram á fundinum. Um þetta snerist málið. Ég lýsi undrun minni á því að menn skuli ekki fallast á að það þurfi að breyta áformum þegar jafnsterk rök hafa komið fram og hafa komið fram hjá heilbrrh. í þessum málum. Það er hins vegar aldeilis ljóst ef menn ætla áfram að berja höfðinu við steininn, neita að gera ýmsar breytingar, þá er það skylda ráðherranna beggja að leggja fram tillögur þar að lútandi eða sjá til þess að fjármagn fáist. Það vissu allir. Ég vona að ég þurfi ekki að segja það aftur og enn á ný.