Samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 14:37:03 (1021)

1995-11-17 14:37:03# 120. lþ. 34.10 fundur 140. mál: #A samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana# þál., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[14:37]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Allir þeir samningar sem eru undirritaðir á borð við þennan sem er til umræðu í Keflavík eru undirritaðir með fyrirvara um samþykki Alþingis. Sá fyrirvari, tel ég og ég er reyndar lögfræðingur, byggist á því að þingið ráði þessu, það er þingsins að ráða þessu. Hins vegar tel ég jafnframt, og við lærum mikið af reynslunni, það ætti hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson að þekkja því að samstarfsmaður hans í þeirri ríkisstjórn sem þá sat braut einmitt af sér varðandi undirskrift, hann gat ekki staðið við hana, að þá beri ráðherranum að leita eftir því við þingið að að þessu sé staðið.

Hitt er svo annað mál að í fjárlagafrv. á hverjum tíma koma fram áform ríkisstjórnar og það eru áform. Tíminn er síðan notaður til áramóta til þess að ná fram æskilegum breytingum á því sem þar er. Það varð niðurstaða ríkisstjórnarinnar í sumar og stjórnarflokkanna að það væri æskilegt að breyta samningum sem gerðir höfðu verið og knýja á um þær breytingar vegna þess að við borgum 85% kostnaðarins, borgum allan reksturinn og það er skynsamlegra að nota peninga til annars. Það er nefnilega að mínu áliti óskynsamlegt og það er mjög hörð afstaða heimamanna ef þeir ætla að krefjast þess, sem verður að gera núna ef ekki á að breyta samningnum, að taka fjármuni úr rekstri annarra sjúkrahúsa eða úr tilfærslum heilbrrn. og setja í steinsteypu í Keflavík sem enginn veit hvenær kemur í notkun. Þess vegna hélt ég að menn gætu komið sér saman um skynsamlega tillögu heilbrrn. sem liggur fyrir og ég veit að hefur verið kynnt heimamönnum. Þetta er aðalatriði málsins þó aðrir hafi kosið að beina athygli sinni að aukaatriðunum.