Samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 15:30:35 (1037)

1995-11-17 15:30:35# 120. lþ. 34.10 fundur 140. mál: #A samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana# þál., ÓRG
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[15:30]

Ólafur Ragnar Grímsson:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessar umræður, m.a. vegna þess að þingmenn Reykn. þurfa að mæta á fundi í Sandgerði sem boðað var til síðdegis. En það var tvennt sem ég taldi mikilvægt að kæmi fram í umræðunni af minni hálfu. Það fyrra hefur nú þegar komið fram. Hæstv. fjmrh. hefur staðfest það greinilega í umræðunum að staðið verði við þá samninga sem hann hefur undirritað. Þótt ráðherrann kunni að vilja breyta þeim mun það ekki hafa áhrif á það að verði slík breyting ekki framkvæmd þá muni samningarnir standa. Það er kjarni málsins sem snertir D-álmuna í Reykjanesbæ og að því leyti hefur þessi umræða verið gagnleg.

Hitt atriðið sem ég vildi að kæmi fram af minni hálfu er að ég hef alvarlegar athugasemdir og efasemdir um að það sé rétt leið sem boðuð er í þessari þáltill. að Alþingi eigi að staðfesta einstaka samninga sem fjmrh. og viðkomandi fagráðherrar undirrita. Það er algerlega ný leið í íslensku stjórnkerfi. Það opnar möguleika á að t.d. undirritun fjmrh. íslenska lýðveldisins sé ekki gild nema Alþingi hafi staðfest hana eftir á. Ef sú skipan yrði tekin upp held ég að æðimargt í fjármálakerfi okkar, viðskiptakerfi, samningum við útlönd o.s.frv. væri með allt öðrum hætti. Ég ætla ekki að rökstyðja sjónarmið mitt mjög ítarlega en ég vildi að það kæmi fram við þessa umræðu að mér finnst sú kerfisbreyting sem stefnt er að með þessari tillögu ekki vera til bóta. Hins vegar gefst tækifæri til þess að ræða það síðar meir. Ég ætla ekki að gera það í ljósi þessara aðstæðna sem ég lýsti í upphafi en ég vildi að það sjónarmið kæmi fram við umræðuna.