Samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 16:13:30 (1047)

1995-11-17 16:13:30# 120. lþ. 34.10 fundur 140. mál: #A samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana# þál., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[16:13]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson hefur að sjálfsögðu áhuga á því eins og við öll að það sé staðið við samninga. Um það er ekki deilt. Hins vegar er það þannig að viðfangsefni okkar á Alþingi Íslendinga vegna afgreiðslu fjárlaga er það að ná endum saman. Það er ekki einfalt mál í dag. Það er bara þannig.

Í heilbrigðiskerfinu er býsna mikil útgjaldaþörf og þess vegna þurfum við að skoða alla þessa hluti. Við þurfum m.a. að endurskoða verkefni sjúkrastofnana. Ég vek athygli á því vegna orða hv. þm. að vandinn hjá okkur snýr töluvert mikið að rekstrinum og m.a. eru vandkvæði hvað varðar rekstur þeirra sjúkrastofnana þar sem óskað er eftir byggingarframkvæmdum eins og hjá Sjúkrahúsi Suðurnesja. Ég held að alveg óhjákvæmilegt sé í umræðunni að skoða alla þessa hluti, þ.e. hvernig getum við tryggt að starfsemi sjúkrastofnana eins og sjúkrahússins í Keflavík verði tryggð því að það eru ekki nema tilteknir fjármunir sem við höfum til ráðstöfunar frá ríkisvaldinu. Við verðum að skoða þetta allt saman af miklu raunsæi í ljósi þeirra aðstæða sem við stöndum frammi fyrir. Það er vandi okkar þingmanna og það er ekki auðvelt mál. Vonandi næst góð niðurstaða hvað þetta varðar og við getum tryggt að rekstur sjúkrastofnananna sem um er að ræða geti haldið áfram.

Vegna umræðu um barnaspítalamálið sem hefur orðið þá vil ég segja að ég hef heyrt vissar áhyggjur hjá mörgum sem vinna á Landspítalalóðinni vegna mikilla áforma um byggingarframkvæmdir á meðan ekki eru til fjármunir til rekstrar þessara stofnana og það þurfum við að íhuga í lok þessarar umræðu.