Áfengislög

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 17:02:47 (1059)

1995-11-17 17:02:47# 120. lþ. 34.12 fundur 144. mál: #A áfengislög# (aldursmörk) frv., HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[17:02]

Hjálmar Jónsson:

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir mælti hér fyrir frv. til laga um breytingu á áfengislögum og leggur til, ásamt meðflm. sínum, að færa áfengiskaupaaldur niður í 18 ár. Þingmaðurinn hv. mælti fyrir frv. og ég leyfi mér að mæla gegn því. Greinargerðin sem hv. flm. láta fylgja mælir líka gegn samþykkt þessa frv., þótt flm. virðist ætla að halda því fram að hún sé rök með málinu. Satt að segja er grg. svo hlægileg á köflum að ég hélt að hv. þm. væri að grínast. En hún var svo alvarleg á svipinn hér áðan að ég er nokkuð viss um að svo var ekki. Enda megum við ekki taka með léttúð á þessu máli.

Svo segir í annarri setningu grg.: ,,Í ljósi umræðna um vaxandi vímuefna- og áfengisnotkun ungmenna gæti slík breyting á áfengislögunum virst mótsagnakennd.`` Og þetta er einmitt alveg rétt. Þetta eru afskaplega miklar mótsagnir. Veit hv. þm. ekki að vandamálin varðandi landasöluna eru ekki gagnvart fólki 18--20 ára gömlu, heldur miklu yngra fólki? Hún nefndi það meira að segja sjálf að það væru tengiliðir í barnaskólum, í grunnskólum og framhaldsskólum. Ekkert af því fólki hefur heimild til að kaupa áfengi. Ég bið hv. flm. að athuga hvað þeir eru að gera og koma með gæfulegri málflutning í annarri umræðu þegar þar að kemur. Þingmaðurinn hv. nefndi einnig að boð og bönn dygðu ekki. Ég spyr: Hvað dugir annað? Af hverju nefnir ekki hv. þm. eitthvað annað en boð og bönn sem hún segir að dugi ekki. Hvað er það þá? Ég vil fá svör við þessu. Það er vísað í landlækni í máli hv. þm. Það vildi ég gjarnan fá að sjá skriflegt, ég trúi þessu ekki. Hún getur ekki hafa átt við landlækni heldur einhvern landalækni sem ég veit ekki hvar er.

Það er viðurkennt af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni að löggjöf sé það sem dugi og gildi í þessum efnum. Svo segir í grg.: ,,Núverandi fyrirkomulag, sérstaklega með hliðsjón af því að 18 ára ungmennum finnst það óréttlátt og óskynsamlegt, getur gert áfengið meira spennandi, þ.e. aukið aðdráttarafl þess.`` Samkvæmt þessu, og ef þessi röksemdafærsla stæðist, væri auðvelt að koma í veg fyrir neyslu ólöglegra vímuefna með því að gefa þau frjáls, með því að hafa þau hvarvetna á boðstólum. Þá væri búið að setja undir þann lekann. Satt að segja er þetta gömul og afsönnuð tugga að mínum dómi. Ég vil vitna í skýrslur og kannanir eins og hv. flm. gerði. Þær eru frá geðdeild Landspítalans sem gerði könnun um áfengisneyslu unglinga eftir að bann við sölu áfengs öls var afnumið. Í ljós kom að frá árinu 1988 til 1992 hafði heildarneysla pilta, 16--19 ára, aukist um nærri 80%. Eitthvað er þetta öðruvísi en tölurnar sem hér voru nefndar áðan. Það segir einnig í niðurstöðu þessarar könnunar: ,,Neysla þeirra sem eru á aldrinum 13--15 ára og drekka áfengi á annað borð hefur rúmlega tvöfaldast eftir að bjórinn var leyfður.`` Þar sem ein helstu rökin fyrir afnámi bjórbannsins voru þau að úr drykkju unglinga mundi draga og bruggun áfengis og smygl mundi leggjast af, þá hefði ef til vill verið eðlilegra að athuga hvað mætti þarna til varnar verða fremur en leggja fram frv. með nánast nákvæmlega sömu röksemdafærslu um aukið aðgengi unglinga að áfengi, vegna þess að það mundi draga úr áfengisnotkuninni.

Það er annað sem mér þykir vega þungt í þessu máli. Það er það að við tvítugt er framhaldsskólanámi yfirleitt lokið hjá þessum aldurshópi. Unga fólkið um tvítugt er að byrja í háskóla. Það eru námsleg skil og það eru líka skil með allt öðrum hætti heldur en við 18 ára. Þá er flest fólk, 18 ára gamalt, í miðju menntaskóla- eða framhaldsskólanámi. Ég tel það alveg deginum ljósara að 16 ára unglingur eigi miklu auðveldara með að nálgast áfengi gegnum 18 ára ungling en tvítugan, ekki síst ef þeir eru í sama skóla, ekki síst ef þeir eru í skóla þar sem þeir sitja kannski saman í sama faginu, þótt tvö ár skilji í milli.

Það er ótal margt sem mér virðist þversagnarkennt í þessari grg. eins og ég er búinn að nefna, ótal margt. Ég hygg að það muni koma fram hér í umræðum manna á eftir, hv. þingmanna. Ég sé engin jákvæð eða sannfærandi rök með því að færa aldurinn niður. Ef svo væri þá mætti líka taka fleiri lög til athugunar. Hvað með skattalögin? Þau eru brotin, á ekki bara að afnema þau? Hvað með tóbaksvarnalögin? Þau eru brotin. Eigum við ekki að afnema þau eða hafa þau bara við 10 ára aldurinn, vera nokkurn veginn viss um að enginn brjóti þau. Umferðarlög, barnaverndarlög, hvað með útivistartímann? Nú eru ótal samtök uppalenda og ábyrgs fólks í þjóðfélaginu sem bera ábyrgð á ungmennum og mótun þeirra að andmæla því sem fram hefur komið hjá einum hv. þm. sem kveðst ekki vilja fara eftir lögunum því það séu vitlaus lög, eins og í leikritinu um Dýrin í Hálsaskógi. En allt um það. Hvernig fer ef unglingar, 13--17 ára, fara almennt að brjóta lög um áfengiskaup ef þau fara að komast í áfengi og það verður viðurkennt? Kemur þá ekki fram frv. um að lækka niður í fermingaraldur?