Áfengislög

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 17:48:38 (1067)

1995-11-17 17:48:38# 120. lþ. 34.12 fundur 144. mál: #A áfengislög# (aldursmörk) frv., GHH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[17:48]

Geir H. Haarde (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að með þessum síðustu ummælum sínum dró hv. ræðumaður Kristinn H. Gunnarsson þessa umræðu niður á lægra plan en jafnvel var hægt að búast við af honum. Þær ásakanir og þær dylgjur sem hér komu fram í garð Sjálfstfl. í sambandi við kosningaundirbúning eru auðvitað þess eðlis að það er ekki hægt að taka þær upp í þingsal með þeim hætti sem þingmaðurinn hefur gert og er jafnvel fyrir neðan hans virðingu að koma með slíkar ásakanir og heimskulegar dylgjur hér í ræðustólinn í tengslum við allt annað þingmál sem hér er í gangi.

Ég læt hryggð þingmannsins vegna aðildar minnar að þessu frv. sem vind um eyru þjóta. Ég þarf ekki að spyrja hann að því hvaða mál ég flyt hér, mér dettur það ekki einu sinni í hug og læt mér í léttu rúmi liggja hvað honum finnst um mína persónulegu aðild að þessu máli enda er þetta ekki mál sem er flutt sem flokkspólitískt þingmál. Það kemur mér hins vegar ekkert á óvart að hann skuli bregðast við þingmáli sem þessu á þann hátt sem hann gerir með þeim sjónarmiðum sem hann hefur hér flutt þar sem beinlínis er girt fyrir, að því er mér virðist, allar umræður af hans hálfu um breytingar sem gætu horft til bóta á áfengislöggjöfinni. Vissulega var margt af því sem rakið var í máli þingmannsins úr skýrslu sem hann var með í höndunum athyglisvert. En auðvitað vita menn að hér er vandamál á ferð sem er áfengisneysla þessa hóps á aldrinum 18--20 ára sem menn neita að horfast í augu við. Ég bið þingmanninn og aðra þingmenn að líta í eigin barm í þessum efnum, hugsa til baka þegar fólk var sjálft á þessum aldri og reyna að rifja upp hvernig fólk sneri sér þá sjálft í þessum málum.

Þingmaðurinn hefur spurt að því hvaða áhrif þetta hafi á heildardrykkjuna. Það veit maður auðvitað ekki fyrir fram. Ég hef ekki trú á að þetta verði til þess að ástandið versni. Þá hefði ég ekki flutt þetta mál ásamt öðrum sem það gera. Ég hef hins vegar trú á því að þetta verði til þess að meira af neyslunni fari í löglegan farveg, út úr landabrugginu og götuhornasölunni inn í löglegan farveg sem við þekkjum hver er. Ég tel að það sé framför í sjálfu sér. Ef menn eru hins vegar sannfærðir um að lækkun á áfengisaldri muni auka neysluna við það að færa aldursmörkin úr 20 árum í 18 þá ættu þeir að leggja til að þau verði hækkuð vegna þess að með sömu rökum liggur væntanlega í augum uppi að með því að hækka mörkin megi minnka vandamálið og minnka neysluna. T.d. að fara með mörkin í 35 ár sem eru önnur viðmiðunarmörk sem við þekkjum.