Áfengislög

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 17:54:07 (1069)

1995-11-17 17:54:07# 120. lþ. 34.12 fundur 144. mál: #A áfengislög# (aldursmörk) frv., GHH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[17:54]

Geir H. Haarde (andsvar):

Virðlegi forseti. Ég heyrði ekki betur en hv. þm. dragi heldur úr dylgjum sínum og ásökunum í sambandi við þau grófu ummæli sem hann fór með áðan í garð Sjálfstfl. vegna þessara mála. Hann er þá að tala um eitthvað sem mér er ókunnugt um. Ég frábið mér slíkan málflutning í máli þar sem verið er að reyna að fjalla um þessi mál á málefnalegan og alvarlegan hátt. Það er ekki hægt að segja að eitthvert frv. sé ómögulegt vegna þess að einhver maður vestur á fjörðum hafi boðið einhverjum unglingum áfengi. Þetta er bara ekki boðlegt og að sá maður hafi kannski verið í Sjálfstfl. (KHG: Hann hefur kannski verið í framboði.) Ég veit ekkert hvað hann er að dylgja hér þessi hv. þm. Það má vera að einhver annar hér í salnum viti það. En þetta eru auðvitað dylgjur, herra forseti, sem ekki er sæmandi að fara hér með í þingsalnum.

Að því er varðar hins vegar umræðu um ástandið í öðrum löndum og hvernig það hefur þróast t.d. í Bandaríkjunum. Ég man vel eftir því þegar var verið að lækka áfengisaldurinn í Bandaríkjunum í 18 ár. Ég var þá þar í námi. Það var gert í ríkinu þar sem ég var námsmaður á þeim tíma. En ég hef síðan ekki fylgst nákvæmlega með því. Það eru hér uppi mismunandi fullyrðingar um það hvernig þetta er núna í mismunandi ríkjum. Það er hægt að fá það á hreint hvort það er alls staðar 21 ár sem miðað er við eða eitthvað annað. En aðstæður í Bandaríkjunum eru allt aðrar en hér líka í þessum málum. Og það hefur ekkert tíðkast þar, það var ekki þannig þá eins og það hefur verið um margra áratuga skeið hér að ungmenni hafi haft þann aðgang að víni sem þau hafa haft hér á Íslandi þó að lögin væru eins og þau eru hér. Það munu engar flóðgáttir opnast fyrir þessi ungmenni þó að þessi lagabreyting verði gerð. Við vitum alveg hvernig ástandið er. Það er ekkert vandamál fyrir krakka á þessum aldri að komast í áfengi. Það er bara ekkert vandamál. En það hefur verið öðruvísi fyrir vestan þar sem aðstæður eru þannig, eins og hv. 1. flm. rakti, að vegalengdir eru allt aðrar, þar sem ekki eru leigubílar á boðstólum, þar sem krakkar byrja að keyra 16 ára o.s.frv. Það er ekki hægt að bera þetta saman. Við skulum bara líta á þennan þátt málsins í ró og næði og ég vona að það verði gert af skynsemi í allshn. og treysti því.