Áfengislög

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 18:34:06 (1079)

1995-11-17 18:34:06# 120. lþ. 34.12 fundur 144. mál: #A áfengislög# (aldursmörk) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[18:34]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Efni frv. er ákaflega skýrt. Það fjallar um að heimilt verði að selja fleirum áfengi en nú er. Bæði í áfengisútsölum ríkisins og á vínveitingastöðum þannig að vínveitingastaðir fá fleiri viðskiptavini. Það er helstur ávinningur af þessu frv. sem formaður Þjóðvaka, hreyfingar fólksins, hefur flutt.

Ég vil benda þingmanninum á annað. Ef það að lækka aldurinn niður í 18 ár á að útrýma landasölu til hópsins 18--20 ára verður hið opinbera verð á víni væntanlega að lækka. Við útrýmum ekki landasölu með því einu að segja: Þeim sem kaupa landa verður heimilt að kaupa vín. Það er verðið sem skiptir þar miklu máli. Er þingmaðurinn að tala fyrir því að við eigum að breyta verðpólitíkinni á áfengi hér á landi og lækka það? Er það boðskapur þingmannsins að lækka eigi verð á áfengi? Enn spyr ég um þann hóp ungmenna sem er yngri en 18 ára. Það mun verða ólöglegt fyrir þann hóp að kaupa áfengi eftir að þetta frv. nær fram að ganga ef svo fer. Hvað leggur þingmaðurinn til að gert verði til að bæta úr og minnka áfengisneyslu hjá þessum aldurshópi sem við getum sagt að sé frá 13--18 ára? Engar tillögur. Það hafa engar tillögur af hálfu flutningsmanna verið til úrbóta, það eru bara tillögur sem leiða hlutina á verri veginn. Þess vegna er þetta afar slæmt frv. Ég er því ákaflega hryggur að á Alþingi Íslendinga skuli finnast fjórir þingmenn sem taka að sér að flytja mál með þessum hætti, bara til að auka vandræði en hvergi úrræði til að taka á þeim. Þetta hefði einhvern tímann verið kallað lýðskrum, virðulegi forseti. (Gripið fram í.)