Áfengislög

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 18:38:55 (1081)

1995-11-17 18:38:55# 120. lþ. 34.12 fundur 144. mál: #A áfengislög# (aldursmörk) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[18:38]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gengur erfiðlega að toga upp úr hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur svör við spurningum sem ég ber fram. Ég bar fram við hana þá spurningu hver væru úrræði hennar til að minnka áfengisnotkun unglinga yngri en 18 ára. Engin svör. (JóhS: Ég hef svarað því.) Engin svör. (Gripið fram í: Forvarnir.) Forvarnir. Gott og vel. Hvar eru þær tillögur í þessu frv., virðulegur þingmaður? (JóhS: Lestu síðustu málsgreinarnar í frv.)

(Forseti (GÁS): Ekki samtöl í þingsal.)

Það er bara ein tillaga í þessu frv. og hún er undanhald. Það er engin tillaga um forvarnir. Það er engin tillaga um aðgerðir til að taka á sölu og dreifingu á landa. Þingmaðurinn talar aðeins um að það sé vandamál en leggur enga tillögu fram til að taka á því aðra en þá að lækka áfengiskaupaaldurinn. Það er svar þingmannsins við þessu. Fátæklegri getur málflutningurinn ekki orðið, virðulegi forseti. Ég verð að segja að ég er ákaflega hryggur yfir því hversu einhliða málflutningur er af hálfu hv. þm. í þessu efni. Það er hvergi nein viðleitni í þessu frv., hvergi nein aðgerð til að bæta úr núverandi ástandi til betri vegar heldur einvörðungu tillaga sem mun samkvæmt staðfestum niðurstöðum og athugunum innan lands og erlendis gera ástandið verra. Það er ömurlegt, virðulegi forseti, að þurfa að benda hv. þm. á að það vantar í hans málflutning allt það sem á að bæta ástandið. Hann er bara með það sem gengur til verri áttar í þessu.