Áfengislög

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 18:41:00 (1082)

1995-11-17 18:41:00# 120. lþ. 34.12 fundur 144. mál: #A áfengislög# (aldursmörk) frv., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[18:41]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er varla að ég nenni upp í ræðustól til að svara útúrsnúningi hv. þm. Það er sagt í lokin á greinargerðinni að samhliða þessu frv. verði --- það er í undirbúningi --- flutt frv. til að efla forvarnir í áfengismálum og auka framlög til forvarnamála í því skyni. Ég vil minna hv. þm. á að á vorþinginu þegar ræddar voru breytingar á áfengisversluninni voru það þingmenn Þjóðvaka sem komu í gegn þeim forvarnasjóði sem nú á að fara að starfa með 30 millj. kr. auknu framlagi. Það er sá sjóður sem við viljum efla. Ég blæs því á það og það er auðvitað rangt hjá þingmanninum að við höfum ekkert fram að færa varðandi forvarnir í þessu efni. Hv. þm. spyr: Hvað hefur hv. þm. fram að færa til þess að draga úr sölu og dreifingu á landa? Það mun draga úr dreifingu og sölu á landa ef tillagan nær fram að ganga. (KHG: Þá verður að lækka verðið á áfenginu.) En ég spyr: Hvaða tillögu hefur hv. þm. sjálfur til að draga úr sölu eða dreifingu á landa?