Stjórnarskipunarlög

Mánudaginn 20. nóvember 1995, kl. 17:34:50 (1126)

1995-11-20 17:34:50# 120. lþ. 37.3 fundur 146. mál: #A stjórnarskipunarlög# (þingseta ráðherra) frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur


[17:34]

Kristín Halldórsdóttir:

Virðulegur forseti. Hér er um mjög athyglisvert mál að ræða og það vekur einnig athygli hvað þingmenn þyrptust í burtu þegar að þessu máli kom. Vonandi er það ekki til marks um áhugaleysi heldur kannski frekar því að kenna hvað orðið er áliðið dags. Við hljótum að sakna fulltrúa stjórnarflokkanna hér inni. Þó að hér séu vissulega fjórir þingmenn frá stjórnarflokkunum þá eru þeir allir varaþingmenn og ég veit ekki hvort þeir eru tilbúnir til að koma upp og lýsa afstöðu sinna flokka til málsins, en það hlýtur að vera mjög forvitnilegt að vita hver þeirra afstaða er því að hér er einn stjórnarþingmanna að flytja þetta mál.

Ég kem hingað upp til þess að taka undir efni frv. Það mætti kannski orða frvgr. svolítið öðruvísi en það er náttúrlega verkefni viðkomandi nefndar að fjalla um það. Ég vona sannarlega að hún gefi sér tíma til þess að fjalla vandlega um þetta mál og noti þetta tilefni til þess að taka góða umræðu um þetta atriði og önnur sem varða þrískiptingu valdsins því að það er löngu tímabært og ég þakka hv. 1. flm. fyrir að flytja það. Kvennalistakonur hefðu raunar átt að vera búnar að flytja slíkt frv. fyrir löngu því að þetta atriði hefur verið í okkar stefnuskrá árum saman, en það er svo með forgangsröðun verkefna að það verður ekki öllu komið við.

Það er eðlileg niðurstaða sem kemur fram í niðurlagi greinargerðarinnar með frv. þar sem flm. frv. segist ekki gera ráð fyrir að þær breytingar sem hér eru lagðar til verði samþykktar á þessu þingi, enda vitum við að þá þyrfti að rjúfa þing. En íslenska stjórnkerfið skiptist í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald eins og hér kemur fram. Markmiðið með þessari skiptingu er náttúrlega að treysta lýðræðið og sjá til þess að ákveðnir hópar nái ekki forréttindaaðstöðu og tryggja að hér sé réttarríki sem byggt er á virðingu fyrir lögum. Ég er mjög sammála því sem kemur fram í greinargerðinni að núverandi fyrirkomulag er ekki nógu gott. Það styður ekki og tryggir ekki nógu vel þá þrígreiningu valdsins sem kveðið er á um og við viljum hafa. Valdsviðum er blandað saman á mjög óheppilegan máta. Þeir sem með framkvæmdarvaldið fara hafa t.d. atkvæðisrétt í þinginu eins og við vitum og þeir sem með löggjafarvaldið fara eru iðulega á kafi í úthlutun fjármagns og í stjórnun fjármálastofnana, sem þingið á að hafa eftirlit með, þó að það hafi eitthvað minnkað í seinni tíð. Völd ráðherra og ráðuneyta eru of mikil og virðast raunar fara vaxandi á kostnað hinna kjörnu fulltrúa almennings sem hafa þó sjálfir í rauninni afsalað sér valdi. Þannig hefur t.d. Alþingi heimilað ráðherrum í vaxandi mæli að setja reglugerðir um efni sem í raun réttri ætti að kveða á um í lögum.

Við þekkjum það að ríkisstjórnir taka sér löggjafarvald í formi bráðabirgðalaga sem þeim er að sjálfsögðu heimilt samkvæmt stjórnarskránni en ætti að vera óþarft því að nú er ekkert því til fyrirstöðu að kalla Alþingi til starfa með stuttum fyrirvara. Hvort tveggja vegur að rótum þess lýðræðiskerfis sem við viljum hafa. Ég minni á það að kvennalistakonur hafa ítrekað lagt fram frv. um afnám heimildar til bráðabirgðalaga sem við teljum algerlega óþarft að hafa enda hafi það verið notað ansi frjálslega.

Í því frv. sem hér er til umræðu er hins vegar aðeins lagt til að ráðherrar sitji ekki á Alþingi og samkvæmt því sem fram kemur í greinargerðinni og eins og hv. flm. gat um áðan er reiknað með því að varamenn taki sæti þeirra á Alþingi og þessu er ég sammála. En eins og ég sagði í upphafi máls tel ég nauðsynlegt að umorða frvgr. og láta það m.a. koma fram að varamenn komi í stað þingmanna sem gerast ráðherrar. Hins vegar er ég ekki þeirrar skoðunar að stefna beri að fækkun þingmanna sem flm. gerði nokkuð að umtalsefni og ber þar tvennt til.

Annars vegar held ég að við getum verið sammála um það að verkefni þingmanna séu ærin og hafi raunar aukist verulega á undanförnum árum, ekki síst með síauknu samstarfi þingmanna á alþjóðavettvangi þannig að fækkun þingmanna mundi þá væntanlega aðeins þýða verulega aukið álag og hugsanlega verri vinnubrögð. Það er ekki eins og reyndar hv. flm. gat um áðan sanngjarnt að fara algerlega eftir höfðatölu þjóðarinnar. Verkefnin eru í sjálfu sér ekkert færri þó að um fólksfærri þjóð sé að ræða en hjá þeim þjóðum sem flm. gat um áðan.

Hins vegar er svo sú ástæða sem vegur enn þá þyngra í mínum huga. Það er að fækkun þingmanna mundi hafa áhrif til hins verra á möguleika kvenna til þess að fá sæti á Alþingi. Það er svo augljóst að ég held að ég þurfi ekkert að skýra það frekar. En meðan jafnrétti er ekki meira en það er í raun og meðan svo margt er ógert til þess að rétta hlut kvenna og bæta stöðu kvenna í þjóðfélaginu þá væri að mínum dómi afleitt að þrengja möguleika þeirra til þess að hafa bein áhrif á Alþingi Íslendinga.

Við kvennalistakonur styðjum efnislega það sem fram kemur í frv. sjálfu, þ.e. að ráðherrar gegni ekki þingmennsku jafnhliða ráðherradómi, og teljum það til þess fallið að greina betur á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og styrkja þar með lýðræðið.