Vegalög

Miðvikudaginn 22. nóvember 1995, kl. 13:46:18 (1177)

1995-11-22 13:46:18# 120. lþ. 39.11 fundur 165. mál: #A vegalög# (reiðhjólavegir) frv., KF
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur


[13:46]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Hér liggur fyrir frv. til laga um breytingu á vegalögum sem miðar að því að bæta aðstöðu hjólreiðamanna og er það vel. Reyndar finnst mér spurning hvort það þurfi að setja þetta mál inn í lög hafandi í huga það starf sem hefur verið unnið í því sveitarfélagi sem við erum stödd í hér og nú, sveitarfélaginu Reykjavík, en þar voru unnar mjög ítarlegar tillögur til úrbóta fyrir hjólreiðamenn á síðasta ári.

Aðdragandi þess var að sett var á stofn svokölluð hjólanefnd í janúar 1994, hjólanefnd Reykjavíkur. Átti ég sæti í henni og var formaður hennar. Þessi nefnd starfaði og viðaði að sér gögnum í eina þrjá mánuði og skilaði síðan tillögum til borgarráðs sem voru samþykktar. Þar á meðal var tillaga um stofnbrautir fyrir hjólreiðar í borginni. Þar var lagt til að búið yrði til stofnbrautakerfi fyrir reiðhjól innan þriggja ára, og með því væri tryggt að hægt væri að komast milli hverfa, innan hverfa og að stórum vinnustöðum á hjóli.

Nefnd þessi lagði auk þess til að Reykjavíkurborg hæfi þegar í stað samstarf við nágrannasveitarfélögin um skipulagningu stofnbrautakerfis fyrir hjólreiðar á höfuðborgarsvæðinu. Einnig var lagt til að sett yrði upp samræmt vegvísunarkerfi fyrir hjólreiða- og göngustíga og gefið yrði út sérstakt hjólreiðakort fyrir borgina. Lagt var til og samþykkt að á næstu þremur árum verði sett upp sérstök umferðarljós fyrir hjólreiðafólk og að við skipulag og hönnun nýrra borgarhluta verði séð fyrir þörfum hjólandi vegfarenda.

Þá var samþykkt að litið yrði sérstaklega á gamla bæinn, miðbæ Reykjavíkur, og fundnar leiðir til þess að auðvelda notkun hjóla þar, t.d. með því að útbúnar verði og merktar sérstakar reinar fyrir hjólreiðamenn í götustæðinu, þar sem því verður við komið. Loks lagði nefndin til að gert yrði slysakort yfir þá staði sem hættulegastir væru í umferðinni í Reykjavík og að endurskoðuð yrði samþykkt um umferðarnefnd Reykjavíkur með tilliti til hjólreiða.

Ég segi frá þessu hér til að vekja athygli á því að fyrirliggjandi frv. er ekki upphaf þess að hér verði komið upp stofnbrautakerfi, vegvísakerfi og umferðarljósum. Þessi vinna er þegar farin af stað í Reykjavík, en það er að sjálfsögðu ánægjulegt að vita að aðrir vilji beita sér fyrir slíkum úrræðum í sínum heimabyggðum.

Þetta vildi ég að kæmi fram, herra forseti.