Vegalög

Miðvikudaginn 22. nóvember 1995, kl. 13:52:43 (1179)

1995-11-22 13:52:43# 120. lþ. 39.11 fundur 165. mál: #A vegalög# (reiðhjólavegir) frv., Flm. SvG
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur


[13:52]

Flm. (Svavar Gestsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka þær góðu undirtektir sem komið hafa fram við þessa litlu breytingartillögu við vegalögin. Í tilefni af orðum hv. þm. Katrínar Fjeldsted vil ég taka fram að ég rakti í fyrra mjög nákvæmlega einmitt þau verk og þær tillögur sem höfðu verið unnar á vegum svokallaðrar hjólanefndar Reykjavíkurborgar sem var skipuð 4. janúar 1994 og í áttu sæti hv. þm. eins og hún nefndi, Vilhjálmur Vilhjálmsson og Þór Jakobsson. Það var í raun og veru margt mjög merkilegt sem kom frá þessari nefnd og var má segja staðfesting á því sem hefur verið að koma frá sveitarfélögunum á undanförnum árum. M.a. hafa verið gerðar samþykktir um þessi mál í bæjarstjórn Egilsstaða, svo ég nefni dæmi, og það hefur verið fjallað um þau sérstaklega á vegum Sambands ísl. sveitarfélaga og um það segir í áliti hjólanefndar Reykjavíkur, með leyfi forseta:

,,Nefndin leggur til að við endurskoðun á samþykktum umferðarnefndar verði lögð meiri áhersla á ábyrgð nefndarinnar varðandi umferð hjólreiðamanna. Bendir nefndin í því sambandi á fyrirmynd að samþykkt fyrir umferðarnefndir í sveitarfélögum út gefin af Sambandi ísl. sveitarfélaga og umferðarráði 1988, en í 6. gr. samþykktarinnar segir:

,,Umferðarnefnd kannar sérstaklega möguleika á að auka öryggi hjólreiðarmanna, svo sem skiptingu gangstíga og með lagningu sérstakra hjólreiðaleiða.``

Hér er með öðrum orðum vitnað til þess að Samband ísl. sveitarfélaga hefur reyndar fyrir alllöngu gefið út leiðbeiningar í þessu efni til umferðarnefnda og sveitarfélaganna og þar með hefur það í raun og veru verið viðurkennt, ekki bara af Reykjavík eða Egilsstöðum heldur af öllum sveitarfélögum í landinu má segja, að hjólreiðar og hjólreiðastígar eiga að vera hluti af hinu almenna samgöngukerfi landsins. Það má því segja að það er ekki seinna vænna að Alþingi kvitti fyrir það að það hafi heyrt þessa umræðu sem fram hefur farið á vegum sveitarfélaganna og annarra landsmanna. Það má kannski segja að það sé vonum seinna að þessi stofnun taki við sér, en það vill oft verða þannig, eða lítur a.m.k. þannig út, að hér séu menn með leðurhlustir frekar en venjuleg efni í heyrnarfærunum sínum.

Fyrir utan þetta mál er það auðvitað þannig að Reykjavíkurborg hefur tekið þátt í því samstarfi 35 borga í Evrópu sem ber heitið Car Free Cities Club og er afar merkilegt samstarf þar sem lögð er á það áhersla að reyna að draga úr notkun bifreiða, aðallega einkabíla, í viðkomandi borgum. Sérstaklega af umhverfisástæðum, en líka af slysaástæðum, fjárhagsástæðum og heilbrigðisástæðum. Í þessu sambandi, þ.e. Car Free Cities Club, hefur Kaupmannahöfn haft forustu fyrir borgum sem eru raunar víðs vegar um heiminn. En það væri auðvitað eðlilegast að Beijing hefði forustu í svona klúbbi vegna þess að hún er göfugasta hjólreiðarborg í heimi eins og allir vita sem hafa séð myndir frá höfuðborg Kínaveldis.

Þessi hópur, Car Free Cities Club, hefur reyndar þegar haldið fund eða fundi á Íslandi þannig að Reykjavíkurborg er myndarlegur þátttakandi í þessu starfi. Og um það er enginn pólitískur ágreiningur í Reykjavíkurborg, eins og m.a. fram kemur af því að það var í tíð fyrri meiri hluta undir forustu hv. þm. sem talaði hér áðan sem á þessum málum var tekið með sérstakri tillögugerð.

Ég tel einnig rétt að geta þess að á vegum hópsins, Car Free Cities Club, var lagður sérstakur spurningalisti fyrir allar þessar 35 borgir, fyrir öll löndin. Starfsmenn borgarskipulags Reykjavíkur svöruðu fyrir hönd Reykjavíkurborgar þegar spurt var: ,,Hvað eruð þið að gera fyrir hjólreiðamenn?`` Í svari þeirra kemur fram að 3--4% af umferð í borginni eru hvorki með einkabílum eða almenningsvögnum. Þar kemur líka fram að um 470 km eru til af göngustígum og reiðhjólastígum í Reykjavík. Þessir stígar eru að vísu ekki greindir í sundur í svarinu, enda þekkja menn það sem ganga um bæinn eða hjóla að það er dálítið erfitt að greina þar í sundur. En í lok álits borgarskipulags og reyndar í samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 12. apríl 1994 er lögð áhersla á að það verði haft samráð og samstarf við bæjarstjórnir annarra sveitarfélaga á svæðinu. En samþykkt borgarráðs frá 12. apríl 1994 er á þessa leið, með leyfi forseta:

,,Lagt fram bréf nefndar sem falið var að gera tillögur til úrbóta fyrir hjólreiðamenn í Reykjavík, dags. 29. mars 1994, þar sem gerð er grein fyrir tillögum nefndarinnar. Þær fjalla um aðgerðir í því skyni að greiða fyrir hjólaumferð og stuðla að aukinni notkun hjóla sem samgöngutækis. Borgarráð samþykkir að framkvæma eins fljótt og kostur er þær tillögur nefndarinnar sem samræmast gildandi skipulagi og fjárhagsáætlun borgarinnar. Að öðru leyti er tillögunum vísað til athugunar við endurskoðun aðalskipulags.`` Loks var samþykkt að hafa þar samráð við grannsveitarfélög Reykjavíkur til að tryggja að reiðhjólaleiðir milli sveitarfélaganna tengist.

Þar með er ég í raun og veru kominn á ný að efni þessa frv., þ.e. að hér í bæ er af eðlilegum ástæðum meira af þessum stígum en annars staðar. Önnur bæjarfélög hafa tekið myndarlega á þessu, bæði í nágrenninu en líka annars staðar, og það er kominn tími til þess að huga að tengingu þessa kerfis, eins og hv. þm. Kristín Halldórsdóttir rakti í ágætum ábendingum sínum áðan.

Ég endurtek þakkir mínar til hv. þingmanna fyrir undirtektirnar og vona að þær séu til marks um að þessi virðulega stofnun taki vel á þessu litla frv., virðulegi forseti.