Vegalög

Miðvikudaginn 22. nóvember 1995, kl. 14:03:17 (1181)

1995-11-22 14:03:17# 120. lþ. 39.11 fundur 165. mál: #A vegalög# (reiðhjólavegir) frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur


[14:03]

Þuríður Backman:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þetta litla frv., eins og flutningsmaður kallaði það áðan, þakka fyrir að það skuli vera lagt fram hér aftur. Það er líka ánægjulegt að vita til þess hvað Reykjavíkurborg og höfuðborgarsvæðið hefur gengið fram með miklum krafti í gerð hjólreiðastíga og hlaupabrauta hér um borgina. Við sem komum hér nokkuð reglulega sjáum þetta og þann mikla áhuga sem er á því að stunda heilnæmara og betra líferni, leggja bílnum og hjóla og skokka. Þetta er að gerast úti á landi líka. Það er ýmislegt sem bæjarfélögin þurfa að leggja til eða endurskipuleggja hjá sér til að koma við hjólreiðastígum og til þess að geta tengt saman byggðakjarna en það gerist ekki öðruvísi en með þeirri breytingu að hjólreiðastígar verði inni í vegalögunum.

Ef við lítum á umferðina eins og hún er yfir sumartímann hér á Íslandi og sjáum alla þá hjólreiðamenn sem ferðast um landið og vitum af þeirri hættu sem af því stafar að hafa þá úti á vegunum, en oft er þetta fólk sem er óvant að hjóla á malarvegum og því óöruggt þar af skiljanlegum ástæðum, þá er í raun og veru mesta furða að ekki skuli hljótast af þessu fleiri slys en verða. Því er nauðsynlegt að gera ráð fyrir hjólreiðabrautum við hlið akbrauta þegar við hönnun vega. Og ef við lítum á brýr landsins þá eru þær mjög fáar þar sem gert er sérstaklega ráð fyrir hjólandi umferð. Það er kominn tími til þess að við förum að taka tillit til þessa við hönnun vega og brúa. Við vitum að það gerist ekki í einni svipan að koma þessu í lag en það gerist heldur ekki nema þetta sé sett inn í vegalög og við a.m.k. undirbúum nýja vegi með tilliti til þess að í framtíðinni verði hjólreiðavegir við alla vegi landsins.