Verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Miðvikudaginn 22. nóvember 1995, kl. 14:33:29 (1186)

1995-11-22 14:33:29# 120. lþ. 39.12 fundur 166. mál: #A verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# þál., Flm. GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur


[14:33]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom víða við í sínu máli. Hann talar um mikinn misskilning varðandi rekstur ríkisins á verslunaraðstöðu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Ég er á annarri skoðun. Lítum aðeins á tölur, bara lítið dæmi: Það er talið að á síðasta ári hafi komið 180 þús. ferðamenn til landsins og þeir hafi eytt hér um tæpum 17 milljörðum. Á Keflavíkurflugvöll komu um 840 þús. ferðamenn. Að vísu er ekki getið um það í þáltill. hversu miklu þeir hafa eytt en hagnaður verslunarinnar á Keflavíkurflugvelli eru um tæpir 2 milljarðar. Nei, hv. þm. Það er nefnilega eins og maður sé að koma inn í dauðs manns gröf þegar maður kemur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Svo einkennilegt sem það er og hverju sem það er að kenna þá er allt þetta flæmi nánast ekkert nýtt. Það er algjörlega vannýtt og vanhugsað hvernig þar er haldið á málum. Það liggur við að þeir sem koma til Keflavíkurflugvallar og farþegar sem eru í svokölluðu transit-flugi þurfi að banka á dyr til að fá að versla. Það er athyglisvert þegar maður kemur úr flugvél og labbar inn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar þá eru tvö auglýsingaskilti áberandi þegar maður labbar inn þennan ,,ramp``, ef svo mætti kalla. Það er skilti frá Eurocard og Coca Cola.

Ég geri ráð fyrir að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, fyrrv. samgrh., hafi víða við komið og hann hlýtur eins og við fleiri a hafa séð muninn á rekstri og þessu dauflega yfirbragði Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar eins og hún er í eiginlega sinni verstu mynd miðað við það sem gerist í flughöfnum annars staðar. Það þykir sjálfsagt og eðlilegt að þar sé haldið hátt á lofti hvað t.d. einkenni land og þjóð þegar komið er til viðkomandi lands.