Verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Miðvikudaginn 22. nóvember 1995, kl. 14:43:08 (1190)

1995-11-22 14:43:08# 120. lþ. 39.12 fundur 166. mál: #A verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur


[14:43]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór hér nokkuð mikinn í þessu máli og fannst mér hann reyna að gera þessa tillögu tortryggilega með því að draga inn í það starfsfólkið og með ýmsu móti reyna að finna það út úr tillöguflutningnum að verið sé að gera lítið úr starfi þess fólks sem vinnur í fríhöfninni. Það er náttúrlega mikill misskilningur að það sé verið að gera það með þessari tillögu. Ég held að það geti allir tekið undir það sem að hv. þm. sagði að þarna vinnur afskaplega dugmikið og útsjónarsamt fólk sem svo sannarlega skilar sínu verki eins og því er stakkur skorinn eftir reglum ríkisins. Ég vil mótmæla því að við séum með einhverja tilburði til þess að gera lítið úr þeirra störfum. Ég vil einnig minna á það að í öllum þeim stofnunum sem ég held að flestir hér inni þekkja þá hefur það ávallt reynst vera starfsfólkinu fyrst og fremst til betri og öruggari starfa í sínu fyrirtæki að það sé rekið af hlutafélögum, af mönnum og fólki sem er næst markaðinum, næst kúnnanum og hefur skilning á því hvernig straumarnir ganga í verslunarrekstrinum sem það á að sinna. Ég lít svo á að með þessari tillögu sé alls ekki verið að gera ráð fyrir því að ríkið megi ekki vera hluthafi í félögum eða fyrirtækjum sem mundu starfa í fríhöfninni heldur sé verið að setja þau undir hlutafjárformið þannig að það séu svokallaðir bisnessmenn, kaupsýslumenn, sem stjórni sem geti þar að auki verið starfsmenn þeirra verslana sem þarna eru. Með þeim hætti erum við að tengja stjórnina, starfsemina og viðskiptavinina saman með miklu skilvirkari hætti en ef öll fyrirmæli koma ofan úr ráðuneyti.