Verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Miðvikudaginn 22. nóvember 1995, kl. 14:52:43 (1194)

1995-11-22 14:52:43# 120. lþ. 39.12 fundur 166. mál: #A verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# þál., DSigf
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur


[14:52]

Drífa Sigfúsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að taka undir með flutningsmönnum tillögunnar varðandi fyrri hluta hennar um að einstaklingum og fyrirtækjum verði gert kleift að setja upp og reka tollfrjálsar verslanir en ég get ekki stutt seinni hlutann í tillögunni. Ég hef ekki heldur séð nein rök færð fyrir því að það sé nauðsynlegt.

Ég tel hins vegar mjög mikilvægt að þetta sé skoðað, menn fari vel í gegnum reksturinn og þá held ég að þeir sjái að fríhöfnin er ekki illa rekin verslun. Ég hef hvergi séð það koma fram. En auðvitað er mikilvægt að það sé tekið á málinu. En höfuðvandamálið er ekki rekstur fríhafnarinnar, það er skuldahali flugstöðvarbyggingarinnar. Það er of dýr leiga fyrir þá sem hafa sótt um að koma þar að og fá að reka einhvers konar viðskipti. Ég nefni sem dæmi að Ferðamálasamtök Suðurnesja hafa verið þarna með bás og þeim hefur þótt húsaleigan svo há að þau hafa kveinkað sér undan en það hafa líka aðrir gert.

Það hefur líka verið ákaflega erfitt að fá að breyta nokkru þarna inni. Sem dæmi get ég nefnt að þegar tollgæslan óskaði á sínum tíma eftir að fá að setja upp skilti sem stendur í lögum að eigi að vera þarna um rautt og grænt hlið þá fékkst það leyfi ekki þannig að á endanum gáfust menn upp við að bíða eftir leyfisveitingu og settu upp rautt og grænt skilti fyrir farþega eftir því hvaða hlið þeir ættu að fara í gegnum enda þurfti auðvitað að gera það þar sem lagasetning fyrirskipaði svo. En það fékkst samt sem áður ekki leyfi þannig að það er margt að. Arkitekt virðist ráða þarna ákaflega miklu og það þarf að lagfæra ef hægt er. Há húsaleiga fyrir lítið pláss skiptir máli.

Hvort þarna er einkavætt eða ekki breytir ekki um fjölda farþega. Þar ræður mestu að fram eru komnar nýjar tegundir af flugvélum sem fljúga lengri vegalengdir í einu og þurfa ekki að stoppa hér. Það skiptir líka máli á hvern hátt Flugleiðir skipa farþegaflugi sínu, hvenær þeir koma við o.s.frv. Ég held að hvernig sem mönnum dettur í hug að breyta flugrekstri fríhafnar breyti það engu um komu farþega. Aðrir hlutir ráða því. Ég hef ekki tekið eftir því að ekki sé vel tekið á móti farþegum. Eini staðurinn þar sem ég hef komið að læstum dyrum í fríhöfn erlendis var í Kaupmannahöfn en hér hef ég aldrei mætt því á Keflavíkurflugvelli. Þar hefur venjulega mætt brosandi starfsfólk með góða þjónustu.

Ég tel að það sé á engan hátt sambærilegt að bera Kaupmannahöfn saman við flugstöðina þar sem svo fáir búa á þessu landi og ekki margir sem fara hér um. Hins vegar finnst mér afar mikilvægt að málið sé skoðað, lagfærðir verði þeir annmarkar sem eru þarna. Eitt mjög veigamikið atriði hefur ekki verið komið inn á hér og það er kannski ástæða þess að þetta heyrir undir utanrrn. Það er m.a. samningurinn við varnarliðið. Það er hlutur sem hvergi er minnst á. Að vísu snertir það kannski ekki beint fríhafnarreksturinn en engu að síður skiptir það máli þegar menn ganga frá þessu.

Starfsmennirnir sem þarna eru mega ekki gleymast. Þeir eru nokkuð áhyggjufullir yfir þessu tali um einkavæðingu rekstrarins. Þeir hafa áhyggjur af réttindum sínum og mér finnst eðlilegt að við þá sé rætt. Ég sé enga ástæðu til þess að ríkið dragi sig út úr þessum rekstri. Mér finnst að þeir sem leggi það til eigi að leggja fram rökstuddar fjármálalegar upplýsingar áður en í það minnsta ég kaupi þær skoðanir.

Varðandi greinargerð sem fylgir með, ef ég má lesa, með leyfi hæstv. forseta, þá stendur þarna í þriðju neðstu línu: ,,Allir sjá hversu gífurlegt óréttlæti og mismunun hér er um að ræða`` og þarna er átt við rekstur fríhafnarinnar. Ég ætla að taka fram að í það minnsta sé ég ekki þetta gífurlega óréttlæti sem felst í því að reka fríhöfn. Hér inni eru þingmenn, þar á meðal 10. þm. Reykn. sem hefur rætt mikið um frísvæði. Ég veit ekki til þess að Suðurnesjamenn hafi rætt um að það væri gífurlegt óréttlæti sem fælist í því að það yrði frísvæði á Suðurnesjum þrátt fyrir ýmsan annan rekstur. Menn ætluðu sér að leysa það og auðvitað á að gera það. En fríhafnarrekstur er auðvitað mjög sérstakur rekstur og þess vegna hefur hann sérstöðu. Það er ekki eðlileg samkeppni því að þar er um allt aðra tegund af rekstri. Það er því ekki hægt að líkja því saman.

Að mínu viti hafa verið skipaðar nægilega margar nefndir og skrifaðar nægilega margar skýrslur um málið. Ég held að kominn sé tími til að leysa þau vandkvæði sem þarna eru. Ég veit að hæstv. utanrrh. hefur verið að vinna í málinu og ég tel að eðlilegt sé að haldið sé áfram þar sem er verið að vinna að því. Ég veit ekki hvort það sé verið að vinna í fjmrn. en ég veit að það hefur verið unnið að þessu innan utanrrn. og ég tel að það sé rétti farvegurinn í málinu.

Að lokum varðandi þau mál sem sagt var áðan um að þarna ætti að opna glugga og hleypa frjálsum vindum um þá vil ég aðeins taka það fram að það blása ágætlega ferskir vindar um Suðurnesjamenn án þess að einkavæðingin felli þá um koll.