Verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Miðvikudaginn 22. nóvember 1995, kl. 15:14:58 (1200)

1995-11-22 15:14:58# 120. lþ. 39.12 fundur 166. mál: #A verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# þál., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur


[15:14]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Hér er á dagskrá mál sem tveir hv. þm. Sjálfstfl. flytja og eru að skora á flokksbróður sinn, hæstv. fjmrh., að gera breytingar á rekstri sem heyrir ekki undir ráðherrann. Hvað á þetta að þýða? Er þetta ekki alvöru mál? Til hvers er verið að eyða tíma í þetta? Fjmrh. hefur ekkert með þetta að gera. Ekki nokkurn skapaðan hlut. Rekstur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar heyrir undir utanrrh. og fjmrh. hefur ekki vald til þess að breyta þar einu eða neinu. Því er síðan við að bæta að í fyrrv. ríkisstjórn voru gerðar, eins og fram hefur komið í þessum umræðum, fimm atrennur að því með tillöguflutningi við ríkisstjórnarborð að taka á aðalvandanum sem er fjárhagsvandi Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar en það strandaði allan tímann á flokksbræðrum hv. flm. (GHall: Var það fjmrh.?) Nei, nei, honum kemur þetta ekkert við. Þ.e. það strandaði á hæstv. samgrh. sem hefur lagabókstaf fyrir því að tekjur sem verða til við þennan rekstur eru teknar af þessum rekstri í alls óskyldar framkvæmdir, meðal annars til að byggja flugstöðvar sem er jafnóðum lokað því enginn kemur þangað.

Ég leyfi mér að álykta af þessu að hv. þm. hafi einfaldlega ekki kynnt sér málið. Það er búið að setja nefnd eftir nefnd eftir nefnd í þetta mál. Það liggja fyrir ógrynni af tillögum um lausn á þessu máli. Og ég segi það bara eins satt og ég stend hérna að það er algjörlega út í hött að flytja einhverjar tillögur um breytingar á rekstrarformi, ég tala nú ekki um þegar verið er að fela það vitlausum aðilum, áður en búið er að leysa fjárhagsvanda hennar. Til hans var stofnað á sínum tíma vegna þess hvernig staðið var að byggingu hennar. Það er opinbert leyndarmál og var reyndar rætt á sínum tíma á hinu háa Alþingi hvernig það var gert. Þá lá hv. þm. og ráðherrum Sjálfstfl. afskaplega mikið á því fyrir kosningar að hraða svo framkvæmdum við þessa flugstöð að þar fór allt í handaskolum. Kostnaður varð margfaldur og fór langt fram úr áætlunum. Síðan hefur ekki verið gerlegt í þremur ríkisstjórnum að taka á þessum fjárhagsvanda og ég segi það einfaldlega því það er staðreynd, það er ekki hægt að flytja breytingartillögur um reksturinn í þessu fyrr en niðurstaða er fengin um það hvernig menn ætla að taka á fjárhagsvandanum. Fjárhagsvandinn er ekki vegna þess að það séu ekki til nægar tekjur af starfseminni sem þarna fer fram. Fjárhagsvandinn er ekki til kominn vegna þess að fríverslunarrekstur hins opinbera hafi ekki skilað nægilega miklum tekjum. Þær hafa satt að segja vaxið svo vel og svo myndarlega að án tekjumyndunar í þessari ríkisverslun væri þessi fjárhagsvandi hreinlega ógnvekjandi.

Hitt er svo allt annað mál að það að hreyfa almennum hugmyndum um að mynda hlutafélag getur verið góðra gjalda vert ef menn hafa kynnt sér eitthvað forsögu málsins eða það hvernig eigi að reka flugvelli í samkeppnisumhverfi. En þessi tillaga er algjörlega út í hött, herra forseti.