Verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Miðvikudaginn 22. nóvember 1995, kl. 15:27:04 (1205)

1995-11-22 15:27:04# 120. lþ. 39.12 fundur 166. mál: #A verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# þál., ÓRG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur


[15:27]

Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og kunnugt er hæstv. samgrh. mikill áhugamaður og aðdáandi skáldskapar. Það gerist stundum í þingsalnum að hann les skáldskaparverk og ljóð undir umræðum. Þær söguskýringar sem hæstv. ráðherra fór með hér voru sömu ættar, fullkomið og algjört skáldskaparverk. Það var ekkert samkomulag gert í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar árin 1988--1991 af því tagi sem hæstv. ráðherra var hér að lýsa. Ástæðan fyrir því að ekki var farið í gerð alþjóðlegs varaflugvallar í kjördæmi hæstv. samgrh. voru allt aðrar en eitthvert samkomulag innan þeirra ríkisstjórnar. Satt að segja er það mjög leitt að hæstv. ráðherra skuli koma inn í umræðurnar með annað eins bull. Maður veltir því fyrir sér hvort ráðherrann sé svona óforskammaður að hann leyfi sér að fara með rugl af þessu tagi í trausti þess að því verði ekki mótmælt eða hvort hann er svona illa heima í málunum. Hvort hann hefur sett sig svona illa inn í vandamál Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og þau mál öll að hann hleypur hér upp í ræðustólinn með aðra eins firru og hann flutti hér áðan. Ég vil mælast til þess við þingheim af samúð með hæstv. samgrh. að við bara gleymum þessari ræðu. Það er einfaldlega best fyrir hæstv. ráðherra að hún hafi aldrei verið flutt. Því það er leitt að vera með ráðherra sem þarf að lifa við það áfram að hafa flutt þennan pistil sem hann flutti hér áðan. En ég vil af mannúðarástæðum mælast til þess við þingheim að við gleymum þessari ræðu.