Verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Miðvikudaginn 22. nóvember 1995, kl. 15:32:55 (1211)

1995-11-22 15:32:55# 120. lþ. 39.12 fundur 166. mál: #A verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur


[15:32]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Það var svo þegar við vorum saman í ríkisstjórn, ég og hv. þm., að hvert ráðuneyti reyndi að gera grein fyrir því við undirbúning fjárlaga hvaða fjármuni vantaði til þess að geta staðið sæmilega í skilum með þau málefni sem heyrðu undir ráðuneytið. Meðal þess sem heyrði undir hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson var flugstöðin á Keflavíkurflugvelli og honum bar auðvitað sem utanrrh. að leggja málið fyrir við fjárlagagerð og í sambandi við fjáraukalög hverju sinni og þýðir ekki að vitna til einhverra manna sem voru í ríkisstjórn áratug fyrr eða skella skuldinni á samráðherra sinn sem er alls ekki með þennan málaflokk, Keflavíkurflugvöll. Ábyrgðin er hans. Hann var utanrrh. um sjö ára tímabil, fjmrh. áður. Þegar við hlustuðum á það sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sagði, þá var hann að tala um að öll málin hefðu verið í óreiðu þegar hann kom í sæti fjmrh. á eftir hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni. Af hverju tóku þeir ekki til ef allt var í óreiðu?