Samgöngumál á Vestfjörðum

Miðvikudaginn 22. nóvember 1995, kl. 15:41:26 (1218)

1995-11-22 15:41:26# 120. lþ. 39.91 fundur 99#B samgöngumál á Vestfjörðum# (umræður utan dagskrár), ÓHann
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur


[15:41]

Ólafur Hannibalsson:

Herra forseti. Það þarf ekki að minna þingmenn á þá atburði sem orðið hafa á Vestfjörðum á þessu ári, í Súðavík, á Reykhólum og nú síðast á Flateyri. Þessar hörmungar hafa sett mark sitt ekki aðeins á íbúa þeirra byggðarlaga sem fyrir þeim hafa orðið heldur og á íbúa annarra byggðarlaga vítt og breitt um kjördæmið og það hefur orðið Vestfirðingum mikill styrkur að finna samhug allrar þjóðarinnar að baki sér sem svo greinilega hefur komið fram í verki og ekki síst í hinni þöglu og áhrifamiklu göngu tugþúsunda manna til samkomu á Ingólfstorgi hér í Reykjavík.

Þegar svo vel er róið í fyrirrúminu mega stjórnvöld ekki láta sitt eftir liggja og hafa raunar heitið því að standa þétt að baki íbúunum í því mikla verki sem fram undan er að græða sárin og koma aftur á eðlilegu mannlífi í byggðunum. Margir bera kvíðboga fyrir vetrinum og skammdeginu og þurfa á því að halda að finna afl og styrk samfélagsins að baki sér.

Ég tel að í þremur nýlegum tilvikum hafi stjórnvöld sent Vestfirðingum kolröng skilaboð: Það er með lokun þverbrautarinnar á flugvellinum á Patreksfirði á dögunum, það er með því að láta samninga við Flugfélagið Erni á Ísafirði renna út í sandinn með þeim hætti að ekki er séð fyrir því að sjúkraflugvél sé staðsett á Ísafirði a.m.k. til vors og það er með því að draga útboð í smíði Gilsfjarðarbrúar þannig að efasemdum og tortryggni er sáð í huga íbúanna um að loforð verði efnd um að smíðinni verði svo langt komið haustið 1997 að hún verði komin í gagnið þann vetur.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um lokun þverbrautarinnar sem ég gerði að umtalsefni í fyrradag. Svo virðist sem ákvörðun um þetta hafi verið tekin einhvers staðar í kerfinu án vitundar flugmálastjóra og enn síður ráðherra. Þessi braut hefur komið að ómetanlegu gagni sem öryggisbraut og er oft eina brautin á suðurhluta Vestfjarða sem fært er að lenda á í norðaustanroki. Bíldudalsflugvöllur, þótt góður sé, getur ekki leyst hana af hólmi auk þess sem fráleitt er að flytja sjúklinga t.d. af Barðaströnd og úr hinum fyrra Rauðasandshreppi fram hjá þessari flugbraut um Hálfdán til Bíldudals. Þessi braut er búin að vera þarna til staðar í a.m.k. aldarfjórðung og það eina sem farið er fram á að sinni er að hún fái að vera í friði. Ég hef raunar orð flugmálastjóra fyrir því að hið fyrsta verði þannig frá henni gengið að hún verði nothæf í neyðartilvikum.

Í gær bárust svo þær fréttir að Flugfélagið Ernir á Ísafirði væri að hætta starfsemi sinni og flytja hana til Reykjavíkur. Ernir hefur verið ómetanlegur öryggisþáttur í tilveru byggðanna þar vestra, flogið að meðaltali um 150 sjúkraflug á ári. Hörður Guðmundsson og kona hans sem átt hafa og rekið þetta flugfélag frá upphafi hafa verið á bakvakt í 26 ár án þess að fá fyrir það neinar sérstakar greiðslur. Ernir hafa leitað víða fanga í starfsemi sinni, m.a. verið með fasta starfsemi í Afríku í fimm ár og átt mest fjórar flugvélar og verið með 14 manns í starfi, en á nú þrjár og á þeirra vegum vinna sjö manns. Vélarnar eru 19 manna Twin Otter, tíu manna Chieftain og svo sex manna vél til minni snúninga. Ernir hafa annast póstflug milli þorpanna á Vestfjörðum, en með tilkomu jarðganganna féll sú nauðsyn að mestu niður. Hitt stendur eftir að Ernir er eini tengiliðurinn milli norður- og suðurhluta Vestfjarða. Því hefur verið reynt að finna flöt á því að Ernir önnuðust póstflug milli Ísafjarðar og Bíldudals, en ekki náðst samkomulag um greiðslur. Það er líka kannski óeðlilegt að Póstur og sími standi eitt fyrirtækja undir þeim kostnaði. Viljinn var vissulega fyrir hendi í þeim samningum en mikið bar á milli um verðlag á þjónustunni.

[15:45]

Það er ekkert við það að athuga að við auknar samgöngur á landi breytist eitthvað í sambandi við samgöngur á sjó eða í lofti. En eftir stendur að það þarf að vera sjúkraflugvél staðsett fyrir vestan, því að oft er hægt að hefja sig til flugs þar þó ekki sé fært til flugvallarins á Ísafirði. Það hefur gætt mjög mikils tvískinnungs í sambandi við þetta sjúkraflug. Mér skilst að heilbrrh. hafi skipað tvær nefndir sem hafi m.a. átt að athuga þetta mál, en það er í uppnámi hvert verksvið þessara nefnda er. Ég tel að það sé nauðsynlegt að ríkisstjórnin öll taki það fyrir að leysa úr þessu máli, a.m.k. til vorsins, að sjúkraflugvél sé staðsett á Ísafirði.

Að lokum vil ég nefna þriðja málið, Gilsfjarðarbrúna, sem var komin það langt að þingmenn bæði Vestfjarða og Vesturlands, töldu sér yfirleitt óhætt að lofa kjósendum því að smíði hennar yrði lokið á árinu 1997. Við vorum með ákveðin orð um það að útboð yrðu hafin sl. sumar. Þetta hefur ekki verið efnt og ég vil skora á hv. ríkisstjórn að senda íbúum Reykhólahrepps þau skilaboð sem þeir þurfa á að halda núna, þ.e. að þessi loforð verði efnd.