Samgöngumál á Vestfjörðum

Miðvikudaginn 22. nóvember 1995, kl. 16:06:23 (1225)

1995-11-22 16:06:23# 120. lþ. 39.91 fundur 99#B samgöngumál á Vestfjörðum# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur


[16:06]

Kristinn H. Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda, hv. þm. Ólafi Hannibalssyni, fyrir það framtak að vekja athygli á samgöngumálum á Vestfjörðum undir forustu Sjálfstfl. annað kjörtímabilið í röð. Það er alveg rétt sem fram kom í formála að hans máli, að stjórnvöld hafa sent röng skilaboð til Vestfirðinga um stefnu sína, röng að minnsta kosti í þeim skilningi sem Vestfirðingar hafa viljað fá að heyra og röng í þeim skilningi sem Sjálfstfl. á Vestfjörðum hefur sagt Vestfirðingum að hann fylgdi eftir. Ég vek athygli á því til frekari áréttingar að það er ekki bara í ríkisstjórninni sem Sjálfstfl. hefur forustu í samgöngumálum, heldur líka hér á löggjafarsamkundunni, því formaður samgöngunefndar er sjálfstæðismaður og reyndar sjálfstæðismaður af Vestfjörðum þannig að málið liggur að mestu leyti í þeirra hendi og gagnrýni á framkvæmd mála er auðvitað fyrst og fremst gagnrýni á þeirra eigin verk. Ég tek undir þá gagnrýni sem fram kom í máli málshefjanda og tel reyndar óviðeigandi af hv. 1. þm. Vestf. að reyna að koma ábyrgð á málinu yfir á herðar heilbrrh. Það er ekki sanngjarnt og á ekki við rök að styðjast.

Það sem mestu máli skiptir við rekstur flugfélags er að flugfélag eigi aðgang að verkefnum og geti tryggt sér verkefni eins og hvert annað fyrirtæki. Það sem hefur helst saumað að rekstrarskilyrðum Flugfélagsins Ernis er sú staðfasta afstaða hæstv. samgrh. að standa vörð um einokunarkerfið í innanlandsflugi. Það hafði verið ákveðið í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar, sem sat á árunum 1988--1991, að opna fyrir þetta flugleyfi á Ísafjörð og gefa öðrum flugfélögum en Flugleiðum heimild til að sækja þangað verkefni í einhverjum mæli. Hæstv. samgrh. tók fyrir það og það held ég að hafi verið hvað afdrifaríkast varðandi möguleika Flugfélagsins Ernis á að skapa sér viðunandi afkomu.

Ég vil svo að lokum, virðulegi forseti, taka undir þær raddir sem hér hafa komið fram um nauðsyn þess að bjóða út þegar í stað framkvæmdir við Gilsfjarðarbrú, ekki bara vegna framkvæmdanna og heimamanna heldur líka vegna atvinnuástandsins í landinu. Því það er ljóst að þessar framkvæmdir skapa um 200 ársverk, sem er allmikið þegar litið er til atvinnuleysisins eins og það er núna, og þetta er um helmingur af þeim störfum sem munu skapast í framkvæmdum við stækkun álvers í Straumsvík, en er ekki nema 5% af framkvæmdakostnaðinum.