Samgöngumál á Vestfjörðum

Miðvikudaginn 22. nóvember 1995, kl. 16:15:46 (1228)

1995-11-22 16:15:46# 120. lþ. 39.91 fundur 99#B samgöngumál á Vestfjörðum# (umræður utan dagskrár), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur


[16:15]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég gáði ekki að mér í minni fyrri ræðu og ætlaði mér þá að víkja að sjúkrafluginu en vannst ekki tími til þess og mun gera það nú. Það er auðvitað laukrétt hjá hv. þm. að ný staða hefur komið upp varðandi sjúkraflugið þegar fyrir liggur að Flugfélagið Ernir mun flytja starfsemi sína til Reykjavíkur og eru þó ekki öll kurl komin til grafar í þeim efnum þar sem fram hefur komið að Hörður Guðmundsson muni e.t.v., ef um semst, halda einni flugvél sinni áfram fyrir vestan til að halda sjúkraflugi áfram. Það er svo stutt síðan þessir atburðir gerðust að það hefur ekkert svigrúm gefist til að ræða þau mál sérstaklega við Flugfélagið Erni. Ég átti stutt samtal við Hörð Guðmundsson um leið og ég frétti af því að hann ætlaði að flytja flugfélagið suður. Ég hlýt að minna hv. þm. á það að þau tvö flugfélög sem hafa haft bakvaktir í sjúkraflugi, þ.e. Flugfélag Austurlands og Flugfélagið Ernir, hafa fengið mun hærri greiðslur vegna sjúkraflugs en t.d. Flugfélag Norðurlands, sem líka annast sjúkraflug. Þannig að það má auðvitað segja að með óbeinum hætti sé greitt fyrir bakvaktir eða a.m.k. komið til móts við þá flugrekendur báða sem því miður hafa átt mjög örðugt uppdráttar og við sjáum það, eins og við vitum raunar um Flugfélag Austurlands líka og ég hef ekki tíma til að víkja að nú.

Ég vil líka segja það að ef hugmyndin á að vera sú að reyna að halda uppi flugsamgöngum milli Ísafjarðar og Vesturbyggðar hlýtur að vera skynsamlegt að gera það á öðrum grundvelli en þeim að halda uppi ástæðulausu póstflugi milli Ísafjarðar og Þingeyrar eða póstflugi bæði til Bíldudals og Patreksfjarðar. (Gripið fram í.) Ef menn hafa það í huga að nauðsynlegt sé að slík tenging sé milli byggðanna á að ræða það á þeim forsendum og hvernig hægt sé að koma því fyrir með ódýrum hætti.

Ég mun á hinn bóginn taka þetta mál upp við heilbrrh. og við samgn., það ástand sem nú hefur skapast fyrir vestan í sambandi við sjúkraflugið og er ástæðulaust að hafa um það mörg orð og líka hvort sem það verður túlkað sem rétt eða röng skilaboð til Vestfirðinga.