Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1994

Fimmtudaginn 23. nóvember 1995, kl. 11:06:41 (1234)

1995-11-23 11:06:41# 120. lþ. 40.3 fundur 98#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1994# (munnl. skýrsla), KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur


[11:06]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það að auðvitað eru nefndirnar sjálfstæðar og eiga að hafa sjálfstæði í störfum sínum. En í þessu tilviki kom upp sú spurning hvernig ætti að koma skýrslunni, eða áliti nefndarinnar, með formlegum hætti inn í þingið. Við leituðum til sérfróðra starfsmanna innan þings sem álitu að nefndin ætti að senda skýrsluna til forseta þingsins, þar sem þing væri ekki starfandi.

Þegar forseta barst skýrslan lagði hann það fyrir forsætisnefnd hvernig með hana skyldi farið. Niðurstaðan varð sú að senda skýrsluna aftur til nefndarinnar. Þar með má segja að þar með hafi það sannast sem hv. þm. sagði, það er á valdi hverrar nefndar að ákveða hvernig með skuli farið. Ég álít að það hafi að mörgu leyti verið gott að fá einfaldlega skýringu á því, hvernig þessi mál eigi að ganga fyrir sig.

Jafnframt vil ég koma því að að ég tek undir það sjónarmið að ástæða sé til þess að hér sé sérnefnd sem fjalli um skýrslur Ríkisendurskoðunar. En aðalatriðið er auðvitað að það sé tryggt að um þær sé fjallað og þeim sé fylgt eftir.