Skýrsla umboðsmanns Alþingis 1994

Fimmtudaginn 23. nóvember 1995, kl. 11:12:43 (1236)

1995-11-23 11:12:43# 120. lþ. 40.4 fundur 97#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 1994# (munnl. skýrsla), SP
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur


[11:12]

Sólveig Pétursdóttir:

Herra forseti. Skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 1994 var tekin fyrir á fundi allshn. þann 21. nóvember sl. Á fundinn kom til viðræðna við nefndina um efni skýrslunnar umboðsmaður Alþingis, Gaukur Jörundsson, ásamt Þórhalli Vilhjálmssyni, lögfræðingi umboðsmanns. Umboðsmaður starfar á grundvelli laga um umboðsmann Alþingis, nr. 13/1987. Hlutverk hans er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Heimild umboðsmanns til eftirlits með stjórnsýslu sveitarfélaga er þó takmörkuð í 3. gr. laganna við það að honum er aðeins heimilt að fjalla um stjórnsýslu sveitarfélaga ef um er að ræða ákvarðanir sem skjóta má til ráðherra eða annars stjórnvalds ríkisins. Fram kom á fundi nefndarinnar að umboðsmanni þykir óeðlilegt að aðrar reglur gildi um sveitarfélög en ríkið í þessu. Í skýrslunni er m.a. bent á að í Danmörku hefur verið lagt fram frv. til laga sem felur í sér að sambærileg takmörkun og í 3. gr. íslensku laganna verði felld brott. Í þessu sambandi tekur umboðsmaður fram að með hliðsjón af því að á undanförnum árum hafa mörg verkefni verið flutt frá ríki til sveitarfélaga, þurfi jafnframt að huga að tilhögun eftirlits með stjórnsýslu sveitarfélaga. Skortur hafi verið á að það hafi verið gert hingað til. Benti umboðsmaður á það á fundinum að þetta eftirlit væri t.d. mjög virkt í Danmörku, þar sem starfandi eru sérstök stjórnvöld í hverju amti sem hafi slíkt hlutverk.

Hann tók það fram að taka þyrfti mið af kostnaði þegar metið væri réttmæti þess hversu víðtækt eftirlitskerfi eigi að vera til staðar. Hins vegar beinir umboðsmaður þeirri spurningu til Alþingis hvort ekki beri að fela æðri stjórnvöldum að endurskoða alla þætti kærðrar ákvörðunar, ef ætlun löggjafans sé að framkvæmd laga á sviði sveitarstjórnarmálefna sé samræmd hjá öllum sveitarfélögum í landinu.

Málafjöldi jókst verulega á milli áranna 1993 og 1994, en umboðsmaður upplýsti nefndina um að málafjöldi í ár væri svipaður og á sama tíma í fyrra. Það gefur von um að ákveðið jafnvægi sé að myndast í þessum efnum.

[11:15]

Einn nefndarmaður spurðist fyrir um af hverju málafjöldi hjá umboðsmanni Alþingis væri hlutfallslega miklu meiri en annars staðar á Norðurlöndum, sbr. töflu á bls. 20 í skýrslunni. Umboðsmaður taldi skýringuna á því aðallega tvíþætta, þ.e. annars vegar væri hefðin fyrir slíku embætti mun meiri ytra sem skapaði ákveðið jafnvægi og hins vegar væru sérstakar kærunefndir á einstökum málefnasviðum sem menn gætu leitað réttar síns hjá mun algengari í þessum löndum. Umboðsmaður benti á að það væri vafalaust mjög til bóta ef löggjafinn gerði meira af því að koma upp slíkum kærunefndum á einstökum réttarsviðum hérlendis.

Á töflu á bls. 17 í skýrslunni kemur fram skipting mála eftir ráðuneytum. Dóms- og kirkjumrn. er þar með hlutfallslega mestan fjölda mála. Það helgast mikið til af því að undir það ráðuneyti heyrðu málaflokkar sem almennt væri mikið tekist á um, t.d. sifjamál. Á öðrum sviðum, t.d. þeim sem heyra undir félmrn., væri minna um að borgararnir gerðu gangskör að því að tryggja rétt sinn gagnvart stjórnvöldum. Slíkt hlýtur að vera umhugsunarefni og eðlilegt að huga að því hvort löggjöf og stjórnvaldsreglur á þeim sviðum séu óskýrari eða geri borgurunum á annan hátt erfiðara fyrir að tryggja rétt sinn.

Af skýrslu umboðsmanns má ráða að enn er margt sem betur má fara í störfum framkvæmdarvaldsins. Einstök ráðuneyti og þær stofnanir sem undir þau heyra þurfa að taka stjórnsýsluframkvæmdina til endurskoðunar og jafnframt að skoða hvort ekki sé ástæða til að bæta þá löggjöf sem gildir á hlutaðeigandi sviði. Í þessu sambandi bendir umboðsmaður á að í bréfi samgrn. til hans, dags. 4. júlí 1995, komi fram að ráðuneytið hyggist taka öll lagaákvæði um gjaldtökuheimildir sem falla undir það og stofnanir þess til endurskoðunar. Um þetta segir í skýrslunni:

,,Ég tel þessa ákvörðun samgrn. mikilvæga enda er almenn þörf á að farið verði skipulega yfir heimildir opinberra aðila til gjaldtöku og gengið úr skugga um að skýr heimild sé til gjaldtöku og fjárhæð gjalds ekki hærri en lagaheimild þess leyfir. Komi í ljós að annmarkar séu á gjaldtökuheimild ber að leita atbeina Alþingis til að úr verði bætt.``

Hægt er að taka undir það með umboðsmanni að of mörg dæmi finnast um að innheimtur hafi verið skattur af aðilum í skjóli þess að um einhvers konar þjónustugjöld væri að ræða. Annars kom fram hjá umboðsmanni að almennt hefði hann átt góð samskipti við einstök ráðuneyti og yfirleitt fengið jákvæð viðbrögð þegar bent hefur verið á hvað betur mætti fara hjá stjórnsýslunni þó stundum hafi viðbrögð dregist nokkuð á langinn. Þá kemur umboðsmaður í skýrslu sinni inn á að stundum skorti nokkuð á þegar breyting verður á störfum ríkisstarfsmanna að stjórnvöld taki þegar í upphafi skýra afstöðu til þess á hvaða lagagrundvelli ætlunin er að breyta störfum eða stöðu starfsmanna. Slíkt athugunarleysi getur leitt til þess að ákvörðun teljist ógildanleg og í sumum tilvikum jafnvel til bótaskyldu ríkissjóðs.

Fram kom fyrirspurn á fundinum um það hvort ekki væri rétt að senda umboðsmanni þingmál til umsagnar og jafnframt hvort fastanefndir þingsins ættu ekki að geta leitað til umboðsmanns um lagatúlkun í einstökum málum. Umboðsmaður lagði áherslu á að hlutverk umboðsmanns væri að vera eftirlitsaðili sem tæki mál til skoðunar á grundvelli laga sem þegar hefðu verið sett. Það væri í ósamræmi við tilgang embættisins að umboðsmaður færi að skipta sér af sjálfri lagasetningunni.

Jafnframt var spurt hvort eðlilegt væri að skipta embætti umboðsmanns meira upp en nú er, t.d. með því að koma á fót sérstökum umboðsmanni neytenda eða þá að fjölga starfsmönnum embættisins þannig að meiri sérhæfing yrði til staðar. Umboðsmaður taldi rétt að fara varlega í að taka einhverja málaflokka undan embættinu. Þá taldi hann ekki ástæðu til að fjölga starfsfólki að svo stöddu. Verkefnum væri í dag skipt á milli manna eftir eðli þeirra og jafnframt væri stundum leitað eftir aðstoð sérfróðra manna utan embættisins ef einstök mál gæfu tilefni til þess.

Lög um umboðsmann barna, nr. 84/1993, tóku gildi 1. jan. á þessu ári. Hlutverk hans er að vera talsmaður barna á almennum grundvelli. Umboðsmaður benti á að ekki mætti rugla þessum tveimur embættum saman. Hlutverk umboðsmanns Alþingis er eins og áður hefur komið fram að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og úrskurða í einstökum ágreiningsmálum. Hann getur eftir sem áður eftir kvörtun eða að eigin frumkvæði tekið til meðferðar mál sem snúast um að tryggja rétt einstakra barna gagnvart stjórnvöldum landsins.

Umboðsmaður skal samkvæmt 11. gr. laganna tilkynna Alþing um meinbugi á lögum. Árlega berast forseta Alþingis allnokkur fjöldi slíkra ábendinga umboðsmanns og hefur allshn. að jafnaði fengið þau mál til skoðunar. Sú venja hefur skapast hjá nefndinni þegar hún hefur lokið yfirferð yfir málin að senda þar sem við á tilmæli til hlutaðeigandi ráðuneyta þar sem óskað er eftir skriflegum upplýsingum um hvað þau hafi aðhafst í málinu. Umboðsmaður lýsti yfir mikilli ánægju með vinnubrögð nefndarinnar og sagði þau gefa störfum umboðsmanns meira vægi.

Eins og fram kemur á bls. 9 í skýrslunni eru dæmi um að ábendingar umboðsmanns hafi leitt til þess að Alþingi hafi haft frumkvæði að því að bætt hefur verið úr slíkum meinbugum með lagasetningu.

Herra forseti. Að lokum vil ég þakka umboðsmanni fyrir mjög greinargóða skýrslu og taka undir orð margra nefndarmanna í allshn. sem lýstu yfir mikilli ánægju með störf umboðsmanns á þeim árum sem liðin eru frá því að embættið tók til starfa.