Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Fimmtudaginn 23. nóvember 1995, kl. 16:15:09 (1258)

1995-11-23 16:15:09# 120. lþ. 40.7 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur


[16:15]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Hér er til umræðu frv. til laga til staðfestingar á samningum vegna ráðgerðrar stækkunar álbræðslunnar í Straumsvík. Þó að mál þetta sé kannski ekki mjög stórt að vöxtum miðað við áhrif á þjóðarhag, eða hvað varðar fjölda starfa í landinu, þá tengist það ýmsum þáttum sem þörf er á að ræða og það ítarlega á Alþingi Íslendinga, ekki síst vegna þeirrar stefnu sem ríkisstjórnin hefur boðað í sambandi við stóriðjumál og ráðstöfun íslensks vatnsafls í því samhengi.

Einnig er þörf á að ræða þetta mál með tilliti til umhverfismálanna og þau mun ég gera að sérstöku umræðuefni og hef haft af því nokkur afskipti við undirbúningsþátt þessa máls og vil í því sambandi beina orðum til hæstv. umhvrh. Einnig er þörf á að ræða þetta mál í tengslum við stöðu atvinnumála almennt í landinu og þá annars staðar en við Faxaflóa sérstaklega þó að víða sé það ástand bágt.

Virðulegur forseti. Ég rifja það upp í upphafi að 1978 þegar ég kom að málefnum álbræðslunnar í Straumsvík í iðnrn. var raforkuverðið til þeirrar verksmiðju 6,8 mill eða þar um bil. Það var með þeim hætti að það stefndi í stórfelldan halla og stórfelldan vanda hjá Landsvirkjun sem hafði þá og var sýnilega knúin til þess í framhaldinu að velta meðgjöfinni af raforkusölunni til Ísals á almenna raforkukaupendur í landinu. Ekki var nokkur leið að fá sanngjarna leiðréttingu á stöðu viðskiptavina Landsvirkjunar og þeirra fyrirtækja sem Landsvirkjun seldi orku á þeim árum án þess að það væri tekið á orkusölunni til þessa stórfyrirtækis. Niðurstaðan sem fékkst, og ekki var gefið mikið fyrir af talsmanni Alþfl. í umræðunni að mér heyrðist, var sú að 1984 var þó samið um það að orkuverðið til þessa fyrirtækis yrði á bilinu 12,5--18,5 Bandaríkjamill fyrir kílóvattstundina. Það er á þeim grunni sem Landsvirkjun hefur tekist lengst af síðan að halda í horfinu rekstrarlega vegna þeirrar stökkbreytingar á raforkuverði til þessa stóra viðskiptaaðila en þó hefur að vísu verið taprekstur þar síðustu tvö árin. Ég staldra við þetta, virðulegi forseti, vegna þess að nauðsynlegt er að læra af þessari sögu, einnig nú þegar menn eru að gera raforkusamning um stækkun álbræðslunnar í Straumsvík með þeim hætti sem hér er verið að gera, og ég tala ekki um í sambandi við þau áform sem uppi eru um stóriðju við Faxaflóann í ríkum mæli.

Allir sem fylgst hafa með þessum málum þekkja hver aðstaðan var á sínum tíma til að fá leiðréttingu á raforkuverðinu. Hún var ekki eingöngu erfið vegna þess hvernig búið var um samninga 1966 heldur var það ekki síður vegna þess að í landinu var verulegur hópur fólks sem leit á þennan samning sem eitt af sínum gildustu verkum og tók alla gagnrýni á þennan samning inn á sig að það væri risið til varnar fyrir hann í staðinn fyrir að taka á til sóknar. Þetta gerði þungt undir fæti að fá fram leiðréttingu og það var ekki fyrr en fyrirtækið í Straumsvík stóð frammi fyrir töpuðu gerðardómsmáli í alþjóðlegum gerðardómi í New York að opnað var fyrir það að verða við kröfum Íslendinga um stórfellda hækkun á raforkuverðinu.

Virðulegur forseti. Ég held að einnig sé þörf á því að hafa þetta í huga í tengslum við þau ákvæði sem varða raforkusölu og eru í þessum samningi þó að ég hafi ekki möguleika á að fjalla um þau í einstökum atriðum. Ég sé það af þessu frv., sem var lagt fram á Alþingi í gær eða í fyrradag og mér hefur gefist í rauninni mjög takmarkaður kostur á að fara í gegnum vegna þess að ég tók sæti á þinginu í morgun --- ég kom til landsins erlendis frá í gær --- að gert er ráð fyrir bindingu á raforkuverðinu með ákveðnum hætti á samningstímanum þannig að það er í rauninni ekki fyrr en á árinu 2014 sem opnað er fyrir verulega endurskoðunarmöguleika á orkuverðinu ef ég hef lesið rétt í málið. Þarf að koma til eitthvert sérstakt harðræði að mati samningsaðila og það er þá gagnkvæmur réttur til að taka raforkuverðið upp til endurskoðunar á þessum tíma.

Ég staldra við þjóðhagslega þáttinn í málinu sem er orkusalan og sérstaklega skattgreiðslurnar fyrir utan launagreiðslur. Hin varanlegu störf eru hins vegar svo fá að ekki er þörf á að fjalla mikið um þann þátt málsins í almennu samhengi. En ég held að það sé mikil nauðsyn á því að iðnn. þingsins fari vandlega ofan í þessa þætti, þar á meðal ofan í skattamálin því að mér sýnist satt að segja að þar geti verið um að ræða létti á skattgreiðslum fyrirtækisins miðað við þau ákvæði sem hafa verið í gildi. Því er óhjákvæmilegt að farið verði vandlega ofan í saumana á því þannig að menn fái heildarmynd af raforkuverðinu, þ.e. ef iðnn. fær orkusölusamninginn til umfjöllunar sem og skattgreiðslurnar.

Virðulegur forseti. Mér finnst satt að segja ekki boðlegt að við séum að ræða um þetta mál án þess að alþingismönnum hafi verið gefinn kostur á því að fá raforkusamninginn í hendur í heild sinni. Ég spyr hæstv. ráðherra að því: Er hann ekki reiðubúinn til þess að veita Alþingi Íslendinga, hverjum einasta alþingismanni, gögn málsins þannig að menn hafi möguleika á að meta málið? Sennilega hefði ég átt að byrja ræðu mína á því að neita að ræða þetta mál fyrr en hæstv. ráðherra hefði afhent samninginn. Það nær auðvitað engri átt þar sem um opinbert fyrirtæki er að ræða sem er Landsvirkjun að þingið sem á að fjalla um málið hafi ekki fengið gögnin á borðið. Það kunna að vera ástæður fyrir því og það er sjálfsagt að skoða þær og hafa umburðarlyndi gagnvart ástæðum sem varða viðskiptaleynd, ekki síst þegar þannig er um hnútana búið sem mér skilst vera að verið sé að afhenda þessa raforku á útsöluverði framan af tímabilinu og það þyki kannski ekki mjög þægilegt að presentera þau efni opinskátt í tengslum við þau áform sem uppi eru um frekari stóriðjusamninga af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Mér finnst ekki ná neinni átt að alþingismönnum sé mismunað í þessum efnum. Alþingismenn í stjórn Landsvirkjunar hafa væntanlega fengið þennan samning og hvers eigum við að gjalda, aðrir þingmenn, að fá ekki að skoða þessi mál og fara yfir þau út frá gögnum málsins? Þetta nær ekki nokkurri átt. Þetta veldur eðlilegri tortryggni og þetta gerir þinginu mjög erfitt fyrir að annast þá gæslu íslenskra hagsmuna sem felst í því að fara vandlega yfir efni málsins.

Það má lesa í fylgiskjölum með málinu og ráðherra hefur haft það yfir við framsögu sína að mikið sé upp úr þessum raforkusölusamningi að hafa fyrir Landsvirkjun. Einir 8 milljarðar kr. eða svo á tímabilinu, ef ég hef tekið rétt eftir, miðað við þær forsendur sem eru ekki traustari en spádómsgáfa þeirra nær sem hafa reitt þær fram.

Virðulegur forseti. Er alveg víst ef við lítum á raforkuverðið eitt út af fyrir sig að þetta sé slíkur kostur fyrir Landsvirkjun að það beri að grípa hann, þetta sé sú gæs sem beri að grípa hér og nú? Það er sagt að afgangsorka í kerfinu sé upp á 730 gígavattstundaframleiðslu á ári, það er mikil orka. Hún er búin að vera þarna nokkuð lengi, en í því sambandi hljótum við að rifja það upp að þegar grunnur var lagður að Blönduvirkjun á sínum tíma var sú virkjun ekki rökstudd sem stóriðjuvirkjun. Af þeim sem reiknuðu forsendurnar í Blönduvirkjun á sínum tíma var það borið fram, og það liggja fyrir gögn um það, að Blanda væri hagstæð virkjun og hagstæðasta virkjunin sem völ væri á á þeim tíma fyrir almenna orkuöflun fyrir landið, fyrir hinn almenna markað í landinu. Vissulega voru þá aðrar orkuspár sem miðað var við sem reyndust mjög fjarri lagi þegar tímar liðu en samt ekki svo að forsendurnar fyrir Blöndu voru þessar þegar ráðist var í framkvæmdirnar og þeim var frestað um skeið og orkuspánni hafði þá verið breytt. Það er rangt að ræða þessi mál á þeim forsendum að það sé einhver stórkostlegur vandi að hafa umframorku í landskerfinu ef virkjunin, sem framleiðslugetan byggir á, hefur verið metin sem hagkvæmur virkjunarkostur og sá hagkvæmasti sem kostur er á. Menn bentu á það þegar Blönduvirkjun var til skoðunar að aðra leið bæri að skoða, það væri smávirkjanaleiðin, þ.e. að raða upp virkjunum sem dygðu fyrir hinn almenna vöxt í landinu í 1--2 ár, virkjanir af stærðinni Villinganes. Bessastaðavirkjun mætti nefna í því sambandi. Virkjanir af þessari stærð. En því var hafnað, ekki á stóriðjuforsendum heldur af almennum kostnaðarástæðum.

Nú er vöxtur í innanlandskerfi okkar ekki nema um 50 gígavattstundir á ári. Hann var metinn yfir 100 þegar þessar áætlanir voru gerðar um 1980 og árin þar á eftir var gert ráð fyrir tvöfalt örari vexti í landskerfinu. Síðan kemur spurningin um það hvort ekki sé möguleiki á að ráðstafa þessari orku þannig að meira fáist fyrir hana en þarna er í boði. Hafa menn farið yfir það? Síðan spurningin um það, hæstv. iðnrh.: Hver verða áhrifin af orkusölusamningi eins og hér um ræðir gagnvart þeim aðilum sem ríkisstjórnin hefur áhuga á að semja við um raforkusölu? Hver verða áhrif fordæmisins? Hvernig verður staðið að því af hálfu stjórnvalda, meiri hluta í stjórn Landsvirkjunar þegar þar að kemur, ef svo ber til, að semja um annað 200 þús. tonna álver? Hver verður staðan? Ætli verði ekki freistandi fyrir ýmsa, m.a. í formi atvinnuástands, að gera samninga þar sem teflt verður á orkuna sem auðlind og teflt á tæpt vað í þeim efnum? Ég óttast það og ég vil að málið sé skoðað í ljósi þeirrar stöðu, sem ég skal fara að koma að, virðulegi forseti, því að þar liggur mér nokkuð á hjarta.

[16:30]

Hæstv. umhvrh. hefur gefið út starfsleyfi fyrir stækkun álbræðslunnar í Straumsvík upp í 200 þús. tonn þar sem gert er ráð fyrir því í grunninum að það er verið að heimila 200 þús. tonna framleiðslu þó að hér sé aðeins verið að semja um 162 þús. tonn eða nálægt 60 þús. tonna aukningu. Hvernig stendur á því að það er verið að hafa slíkt hlaup sérstaklega þegar þannig er staðið að verki í sambandi við starfsleyfið? Það er vissulega ekki verið að gefa það endanlega út upp í 200 þús. tonn en þegar þannig er staðið að verki að ekki er farið eftir almennum alþjóðlegum viðmiðunum eins og þær liggja nú fyrir varðandi almennar mengunarvarnir er þá eitthvert vit í því að binda sig í þessum efnum --- og það á reyndar við um raforkusöluna líka --- gagnvart Ísal upp á 200 þús. tonn? Mér finnst meira en vafasamt að gera það og það eru fjölmörg atriði sem ég þarf að nefna í sambandi við þau mál.

Virðulegur forseti. Það er ekki aðeins að mengunarviðmiðunin varðandi mengunarvarnir sé með þeim hætti sem ég nefndi heldur er það svo að í málsmeðferðinni hefur verið haldið á þessu máli þannig að það stangast á við alla þróun í þessum efnum, þ.e. að opna almenningi aðgang að því hvað er að gerast í sambandi við umhverfismál fyrirtækja. Hæstv. umhvrh. hefur látið hafa sig í það að slást í hóp þeirra sem vilja þrengja aðgang almennings að upplýsingum um umhverfismál og að möguleikum að koma þar að athugasemdum. Það ofan á annað er stórkostlega ámælisvert að mínu mati og ekki séð fyrir endann á því. Kannski eru einhverjar sérstakar ástæður, virðulegi forseti, sem valda því að hæstv. iðnrh., sem ber fram frv., tvítekur í þessu plaggi að staðfesting ráðherra á starfsleyfi felur í sér endanlega afgreiðslu málsins.

Virðulegur forseti. Við skulum nú stikla á nokkrum atriðum sem varða starfsleyfið. Ég kem þá fyrst að því sem varðar tækni þá sem álbræðslan í Straumsvík byggir á og sem hugmyndin er að nýta áfram í sambandi við þessa stækkun. Þessi tækni, sem kölluð er Ísal-tækni í starfsleyfi, uppfyllir ekki skilyrði alþjóðasamninga um bestu fáanlega tækni. Hún stenst ekki mælikvarða sem er skammstafaður BAT á enskunni, Best Available Technology, og þess vegna er ekki vísað í bestu fáanlega tækni í starfsleyfi ráðherrans heldur í Ísal-tækni. Á hverju byggir þetta? Það byggir m.a. á því að ekki er hægt að tappa álinu í Straumsvík úr lokuðum kerum með rana heldur þarf að brjóta þau upp og af þeim sökum eykst mengunin, af þeim sökunin verður útblástur flúors meiri heldur en hann yrði með annarri tækni, við getum nefnt pechinay-tækni. Við getum nefnt ýmsa aðra tækni sem um er að ræða.

Þetta varðar umhverfismálin. En spurningin um hvaða tækni er beitt hefur fleiri hliðar, virðulegi forseti, og það var rætt lítillega í opinberri umræðu á síðasta sumri sem ég vil leyfa mér að tengja aðeins við þetta atriði málsins. Það er hættan á því, svo ég taki ekki dýpra í árinni, að sú bræðsla sem verið er að leyfa tvöföldun á, verði ekki samkeppnisfær og það geti reynt á þau skilyrði þessa samnings að fyrirtækið leggi upp laupana á leiðinni innan gildistíma samningsins. Ég geri ráð fyrir að hæstv. iðnrh. hafi tekið eftir því sem var til umræðu í blöðum í sumar þar sem Pálmi Stefánsson, tæknilegur framkvæmdastjóri hjá Hydro Equipment í Noregi, fjallaði um þessi efni og varaði mjög sterklega við. Þessi efnaverkfræðingur, sem starfaði hjá Alusuisse í Sviss og Austurríki 1968--1969, stjórnaði uppsetningu tækjabúnaðar hjá Ísal í Straumsvík á árunum þar á eftir og var verkefna- og þróunarstjóri hjá Ísal 1973--1989, varar mjög sterklega við því að þarna sé verið að framlengja tækni sem sé orðin úrelt. Auðvitað brást forstjórinn í Straumsvík við, Christian Roth, og svaraði og færði rök að því að það væri hagkvæmast fyrir fyrirtækið að byggja á Ísal-tækninni. Ein af ástæðunum sem forstjórinn nefnir, og það er rétt að rifja það upp --- það er í grein í Morgunblaðinu frá 7. sept. --- að með því aðeins að beita Ísal-tækni verði hægt að selja ódýrt ál í framtíðinni. Þannig er það orðað í Morgunblaðinu. En það vill þannig til að það er álverðið sem allt veltur á í sambandi við hvernig raforkuverð kemur út. Ég hvet til þess að þetta efni verði athugað sérstaklega af iðnn. þingsins, þ.e. hin úrelta Ísal-tækni, bæði að því er varðar umhverfismálin en einnig að því er varðar samkeppnisstöðu fyrirtækisins.

Virðulegur forseti. Síðan er það starfsleyfið sjálft, hinar endurskoðuðu tillögur um starfsleyfi sem hæstv. umhvrh. hefur staðfest og segir að hann sé búinn að staðfesta endanlega þannig að engu verður um hnikað. Ég verð að fara fljótt yfir sögu en varðandi það efni sem menn hafa haft hvað mestar áhyggjur af í nágrenni verksmiðjunnar, þ.e. losun flúors, er verið að heimila fyrirtækinu í heild að losa þrefalt meira flúor en miðað er við í nágrannalöndum okkar, í stórveldi í áliðnaðinum eins og í Noregi en einnig í Svíþjóð og víðar um lönd þar sem hugsað er um umhverfismálin. Þrefalt meiri losun og ekki er notað tækifærið núna að binda fyrirtækið gagnvart stækkuninni og miða þar við alþjóðlega staðla. Ó nei, allt er sett í einn pott og það eru engin tök á því að halda fyrirtækinu sérstaklega við efnið varðandi nýja hlutann, ekki einu sinni miðað við þau slöku mörk sem sett eru sem viðmiðun inn í starfsleyfið. Bara til að nefna þetta er losunin á flúor 1,4 kg/tonn á árgrundvelli. Viðmiðun í Noregi er 0,4 eða þar undir og ég hef bréf undir höndum frá álfyrirtæki í Noregi frá því fyrir fjórum árum eða svo sem segist komast niður í 0,35 í sambandi við það. Þar er jafnframt á ferðinni vothreinsibúnaður sem gerir kleift að lækka einnig losunina á flúor.

Virðulegur forseti. Í gildi er alþjóðlegur samningur undir merki Parcom eða Parísarkommissjónarinnar sem gerður var 1994 og í tillögunum að þessum Parcom-samningi, sem er nr. 94/1 Parcom Recommendation, gera Norðmennirnir tillögur um það að fara niður í 0,4 í þessari alþjóðlegu viðmiðun varðandi flúor og ef ekki er um að ræða vothreinsun verði mörkin 0,5. Auðvitað komu ýmsir og sögðu: Þetta er allt of strangt og það var rætt um þetta í Parísarnefndinni sem gengur frá eða fer yfir þessi mál og þar komust menn að samkomulagi um að hámarkið í losun yrði 0,6 kg/tonn. Hvað gerir hæstv. umhvrh. Íslands sem er aðili að Parísarsamþykktinni? Hvað setur hann inn í starfsleyfið sem viðmiðun fyrir hinn nýja áfanga? Er það 0,6? Nei, það er 0,65 + 0,2 tonn vegna svokallaðrar hreinálvinnslu eða 0,85 kg/tonn sem losun fyrir flúor. Haldið þið að það sé ekki efnilegt fyrir fyrirtækin að koma í kjölfarið og vísa í þetta starfsleyfi? Fyrirtæki sem hæstv. iðnrh. ætlar að draga að landi uppi í Keilisnesi eða í Hvalfirði, Columbia Aluminium og hvað þetta heitir, að geta gengið að starfsleyfi sem er svona útbúið að því er varðar flúor.

Hvernig er staðið að málum varðandi brennisteinsdíoxíð? Það er í rauninni sama og núll. Það stendur að vísu viðmiðunin 21 kg/tonn heimild til losunar en það er enginn möguleiki að verjast því að hækka þessi mörk ef rafskautin, sem valda brennisteinsmenguninni, innihalda meira af brennisteini. Þannig er frá þessu gengið ef það er til óþæginda fyrir fyrirtækið að það getur ekki aflað sér rafskauta sem eru með lægra innihaldi þannig að þau standist þessi mörk að þá er bara slakað til vegna alþjóðlegrar samkeppni. Þetta er vel um hnútana búið. Í Skandinavíu er vothreinsun sem gerir kleift að lækka þessi mörk niður í um 2 kg/tonn og svo fær hæstv. umhvrh. uppáskrift frá Hollustuvernd ríkisins um að það sé svo sem allt í lagi. Hollustuvernd ríkisins 1990, þegar við fjölluðum um stækkun álbræðslu í Straumsvík og verið var að afgreiða sérstakt frv. um raforkuver vegna væntanlegrar stóriðju, rökstuddi það skýrt að það væri mjög æskilegt frá umhverfissjónarmiðum að hreinsa brennisteininn. Núna er engin þörf á því. Er þetta trúverðugt?

Virðulegur forseti. Þörf væri að vekja athygli á mörgum fleirum atriðum sem snerta mengunarmálin og ég hef gert það í þeim erindum sem ég hef sent til Hollustuverndar ríkisins, til skipulagsstjóra ríkisins sem er að fjalla um mat á umhverfisáhrifum, til hæstv. ráðherra og til stjórnar Hollustuverndar ríkisins. Ég hef viljað láta á það reyna að menn tækju á í þessum efnum en færu ekki bara að ganga erinda fyrirtækisins og taka því sem fyrirtækinu þykir gott. Ekki bara út af þessari stækkun núna, heldur vegna þeirrar ábótar, sem menn eru að óska sér sem hafa völdin á Íslandi í dag, eru að óska sér í sambandi við stóriðju.

Er mönnum sama um loftgæðin á aðalþéttbýlissvæði landsins? Orð og hátíðarræður duga ekki í umhverfismálum. Það eru aðeins aðgerðir, að girða fyrir mengun, að gæta þess að spilla ekki umhverfinu. Það er það sem gildir. En mér finnst málið liggja þannig að þessir heiðursmenn, hæstv. ráðherrar sem eru hér, virðulegi forseti, og hlýða á mál mitt hafi í raun ekki miklar áhyggjur af þessu. Ég trúi því ekki að þeir gerðu þetta ef þeir hefðu farið yfir málin og athugað þau af gaumgæfni.

[16:45]

Koltvísýringurinn, sem hv. þm. Svavar Gestsson vék að, og sem veldur gróðurhúsaáhrifunum sem æ meiri líkur eru á að séu á því ferli sem menn hafa spáð fyrir um. Það er að koma ný alþjóðleg skýrsla um það efni, það er náttúrlega ekkert snert við því og það er bara allt í lagi, segir hæstv. umhvrh., vegna þess að ella væri brennt meiri kolum úti í löndum. Það á ekki að gæta að sínu nágrenni, það á ekki að gæta að því sem við höldum á. Þetta er auðvitað almennt stórt vandamál fyrir okkur Íslendinga sem höfum gert alþjóðlega skuldbindingu um það að valda ekki meiri mengun koldíoxíðs árið 2000 en var hér á landi árið 1990. Virðulegur forseti. Það er verið að framleiða skýrslur og álitsgerðir á vegum ríkisstjórnarinnar hvernig eigi að sniðganga þetta. Það er hetjuskapurinn. Hvernig eigi að sniðganga þetta, hvernig eigi að leita raka fyrir því að við þurfum ekki að taka á þessum málum. Og hreinálskaflinn sem ég gat um finnst hvergi í alþjóðlegum samþykktum. En af því að fyrirtækið óskar eftir því að fá tilslökun út á svokallaða hreinálsframleiðslu þá er hún bara veitt.

Síðan er það, virðulegur forseti, sem að mínu mati ekki síður alvarlegt í þessu máli að því er varðar umhverfið, að það á að gera mismunandi kröfur til fyrirtækja á þessu sviði eftir því hvar þau eru staðsett í landinu, eftir því hvernig aðstæðurnar eru. Að mati Hollustuverndar ríkisins, og það er víða í skjölum, eru líkur á því að það verði að gera mun harðari kröfur til umhverfisverndar og mengunarvarna í álbræðslu og hliðstæðum fyrirtækjum norður í Eyjafirði en hérna á Faxaflóasvæðinu þar sem loftar vel um og menn vona að vindurinn beri þetta frá þeim. Hvað þýðir þetta fyrir uppbyggingu slíkra fyrirtækja annars staðar en við Faxaflóa eða við hliðstæðar aðstæður? Hvað þýðir þetta, hæstv. umhvrh., gagnvart Eyjafirði þar sem menn hafa eðlilega verið að skoða það? Er hægt að koma þar upp einhverjum iðnaði sem nýtir orku? Hvað þýðir þetta? Hvað segja hinir erlendu fjárfestar? Vilja þeir kosta því til sem þarf til þess að koma fram með mengunarvarnir? Ég er ansi hræddur um að það verði fátt um svör eða réttara sagt að þeir verði fljótir að svara í þeim efnum og eins varðandi aðstæður austur á fjörðum.

Það er stórkostlega alvarlegt mál að standa svona að verki og það á ekki að þekkjast í nokkru landi nú á dögum að þannig sé staðið að að segja: Við mismunum í kröfum til umhverfisverndar eftir því hvar fyrirtækið er á landi að því er varðar lágmarksskilyrði. Ég hefði gaman af að sjá hæstv. umhvrh., virðulegi forseti, standa fyrir þessu máli hér. Hvernig ætlar hann að svara fólki norður í sínu kjördæmi þegar það fer að spyrja um það hvernig standi á því að haldið er á þessum málum með allt öðrum hætti heldur en t.d. er gert í grannlöndum okkar þar sem menn hafa samræmdar reglur um þessi efni.

Virðulegur forseti. Þá ætla ég að leyfa mér að koma að því sem ég tel mikið alvörumál einnig og það er hvernig reynt er að útiloka eðlilega málsmeðferð í tengslum við umhverfismálin að því er varðar þetta fyrirtæki og veitingu starfsleyfis. Hvað hefur gerst í þeim efnum? Ég leyfði mér, aumur þingmaður, að vísa athugasemdum sem ég hafði gert og Hollustuvernd ríkisins sem stofnun og þeir starfsmenn sem þar eru vildu ekki fallast á til stjórnar Hollustuverndar ríkisins samkvæmt reglugerð frá 1994. Í aðdragandanum höfðu embættismenn í Hollustuverndinni kallað mig til fundar eftir fund og rætt málin með mér og fjallað um þessi efni, en nú datt einhverjum snillingi það í hug, ég vona að það hafi ekki verið fjartengsl uppi í umhvrn. á ferðinni, að það væri kannski hægt að stinga upp í þennan gemling. Það mætti kannski reyna það og það var leitað eftir áliti lærðs prófessors uppi í háskóla, Eiríks Tómassonar, til þess að meta það hvort umræddur vandræðamaður væri eðlilegur kæruaðili að þessu máli til stjórnar Hollustuverndar ríkisins. Auðvitað bjó prófessorinn til lærða álitsgerð um það sem stangast á við alla réttarþróun í sambandi við umhverfisrétt að það væri mjög óeðlilegt að maður sem virtist ekki hafa neinna alveg sérstakra hagsmuna að gæta í þessu máli, væri sennilega svona upp við verksmiðjuvegginn, væri að skipta sér af þessu. Það væru bara ekki góðir siðir. Og meiri hluti stjórnar Hollustuverndar ríkisins taldi að þar með væri málið dagljóst og vísaði þessum athugasemdum til föðurhúsanna og vildi ekkert á málinu taka. Einn stjórnarmaður hafði aðra skoðun og bókaði um það. Sá sem stýrði fundum var aðstoðarmaður hæstv. landbrh. og réði þessari afgreiðslu.

Nú er það svo að næsta ráð í þessu efni af minni hálfu var það að nota rétt minn til þess að vísa úrskurði stjórnar Hollustuverndar ríkisins til sérstakrar úrskurðarnefndar. Þessi nefnd er núna að fjalla um kröfu mína um það að stjórn Hollustuverndar ríkisins verði gert að taka efnislega á mínum athugasemdum eins og reglugerð gerir ráð fyrir. Það er ekki séð fyrir um það, málið er í rekistefnu fyrir þessari úrskurðarnefnd, en hæstv. ráðherra undirstrikar hér: Staðfesting ráðherra felur í sér endanlega afgreiðslu málsins, les ég á bls. 47. Svo les ég hér, hæstv. umhvrh., svofellt:

,,Stjórn Hollustuverndar ríkisins afgreiddi endanlegar tillögur að starfsleyfi til umhvrh. á fundi þann 2. nóv. 1995``, stendur á bls. 48.

Ég hef ekkert heyrt um það mál, hæstv. ráðherra, fyrr en ég kem að þessu frv. í morgun og ég bið um svar hið skjótasta. Hvar er þessi afgreiðsla stjórnar Hollustuverndar ríkisins til til umhvrn. um endanlegar tillögur að starfsleyfi? Það ætti ekki að standa á svörum.

Það sem ég hef verið að rekja hér gerist þrátt fyrir það að í öllum alþjóðlegum rétti sé verið að opna fyrir aðgengi almennings að umhverfismálum í sambandi við atvinnurekstur sem á öðrum sviðum, þrátt fyrir það að Alþingi Íslendinga lögfesti nýlega sérstök lög um upplýsingaskyldu varðandi umhverfismál að tillögu fyrrv. umhvrh. og þrátt fyrir það sem lesa má í þeim lögum sem varða mat á umhverfisaðstæðum. Á sama tíma er verið að beita bolabrögðum til þess að koma í veg fyrir eðlilega umræðu um þessi efni. Er ekki alveg nóg komið sorasögunni í sambandi við umhverfismál þessa fyrirtækis sem hér er verið að leggja til stækkað verði þó að menn reyni að standa í fæturna að því er varðar almenna mannasiði í þessum efnum?

Ég óttast það mjög ef það verður niðurstaða kerfisins að almenningur og sá sem hér talar falli ekki undir ákvæði mengunarvarnareglugerðar um það að hafa rétt til athugasemda.Það er eitthvað einkennilegt, það er eitthvað meira en bogið, virðulegur forseti.

Síðan eru það byggðamálin í sambandi við þetta mál. Stefna ríkisstjórnarinnar er ekki bara þessi stækkun í Straumsvík. Það er álbræðsla á Keilisnesi sem fyrst, kannski Colombia Aluminium verksmiðja uppi í Hvalfirði fyrir áramótin þar sem menn eru að fara að ráðast í göng undir Hvalfjörð til þess að auðvelda þetta, stækkun járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga og sinkverksmiðja á Faxaflóasvæðinu og magnesíumverksmiðja suður á Nesjum. Þetta er stefna ríkisstjórnarinnar í stóriðjumálum eins og hún blasir við okkur. Hvaða skilaboð er verið að senda til byggðanna í landinu frá Framsfl. sem stendur fyrir þessum málaflokki með þessari stefnu? Og hverjar, hæstv. iðnrh., eru kröfurnar um orkuverð í þessar fabrikkur? Hvert er lágmarkið? Er það 22 mill eins og Landsvirkjun gaf út 1982? Eða er það spottprís af því tagi sem á að fara að afhenda raforku á til ársins 2004 til þessarar stækkunar í Straumsvík?

Ég held, virðulegur forseti, að það sé verk að vinna fyrir Alþingi Íslendinga að skoða þetta mál, ekki út frá skammsýnum sjónarmiðum., það er nóg af þeim. Alþingi á að líta á mál af þessu tagi í allri þeirri breidd sem varðar málið, þar á meðal ráðstöfun vatnsorkuauðlinda Íslands til atvinnuuppbyggingar í framtíðinni og gæta þess að feta ekki, virðulegi forseti, þá óheillaslóð sem haldið var við á 8. áratugnum þangað til tækifæri gafst til að breyta þar um og leiðrétta aðeins kúrsinn. Við Íslendingar höfum ekki efni á því að fara í sama farveg aftur.