Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Fimmtudaginn 23. nóvember 1995, kl. 17:29:27 (1261)

1995-11-23 17:29:27# 120. lþ. 40.7 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur


[17:29]

Guðni Ágústsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir ágæta ræðu. Það er hárrétt hjá honum að það er vert að meta kosti og galla á hverju máli og miðjan reynist oft best.

Hv. þm. segir að engum stórlaxi hafi verið landað enn þá. Það kann að vera hárrétt. Ég vil spyrja hv. þm. sem áreiðanlega er góður veiðimaður hvort honum þyki það ekki gott kl. 9 að morgni að hafa landað litlum laxi sem gefur vonir allan daginn því sannarlega er ríkisstjórnin rétt að hefja sinn starfsferil. Klukkan er svona rétt 9 að morgni á starfsferli hennar eftir 6 mánaða starf þannig að við bindum vonir við að fleiri laxar muni fylgja í kjölfarið og þetta muni vera vítamínsprauta eins og minnst hefur verið á.

Hins vegar kemur fram í þessari umræðu að Alþb. er hinn sanni íhaldssflokkur þjóðfélagsins. Ég hef stundum sagt að eitt sinn var ég ungur og róttækur framsóknarmaður, barðist gegn stóriðju og her með vini mínum, hv. þm. Ólafi Ragnari og fleirum. Nú er ég miðaldra raunsæismaður og tek ofan hattinn minn fyrir því afreki hæstv. iðnrh. að hafa landað þessum laxi um leið og auðvaldið stingur hér niður fæti sínum. Ég er sannfærður um að sá samningur sem hefur tekist mun hafa áhrif á íslenskt samfélag á mörgum sviðum, ekki bara að fleiri munu vilja semja við okkur, heldur einnig að framtak í landinu sjálfu mun fylgja eftir. Ég legg á það áherslu og tek undir það í umræðunni að auðvitað verður að gera samhliða þessu öfluga áætlun um sterka byggðastefnu, framkvæmdir úti á landsbyggðinni.

[17:30]