Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Fimmtudaginn 23. nóvember 1995, kl. 17:33:14 (1263)

1995-11-23 17:33:14# 120. lþ. 40.7 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur


[17:33]

Guðni Ágústsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Mönnum verður eðlilega tíðrætt um 12 þúsund störf sem Framsfl. hefur heitið þjóðinni að berjast fyrir á þessu kjörtímabili. Ef við skoðum áætlun Þjóðhagsstofnunar er miðað við að halda stöðugleika og fjárlögunum kannski í því formi sem áætlunin gerir ráð fyrir. Þá sér Þjóðhagsstofnun fyrir sér milli 9--10 þúsund störf, þar eru allar stóriðjuframkvæmdir utan við. Mér sýnist að við þessar aðstæður sé Framsfl. þegar farinn að vinna heilmikil afrek í því að efna samning sinn við þjóðina og þetta mun hafa mikil áhrif.

Hitt er annað mál og Framsfl. þarf að fylgja því vel eftir og ekki síst hæstv. viðskrh., ég á við í peningamálum, vaxtamálum og fleira, enda hefur hann einnig hafið þá sókn.

En við hv. þm. vil ég segja það að oft þegar ég byrja veiði kl. 7 að morgni og er búinn að berja til 9 og hef engum náð er ég orðinn leiður en fái ég hann klukkan 9 gleðst ég og vinn af helmingi meiri krafti það sem eftir er dagsins. Ég er sannfærður um að ég sé áhrif þessa litla lax í því að hingað leita nú fleiri framkvæmdamenn utan úr heimi eftir 20 ára deyfð þar sem menn hafa í rauninni verið að fiska á þess að vera með öngul á línunni. Nú er Framsfl. kominn til valda, menn eru byrjaðir að landa og ég ætlast til þess að framkvæmdasamir Íslendingar muni í framhaldi af þessu finna að sóknin er þeirra, tækifærin eru þeirra. Það er ríkisstjórn Framsfl. sem er að störfum sem mun gefa þeim nýjan kraft í atvinnumálum.