Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Fimmtudaginn 23. nóvember 1995, kl. 19:18:00 (1282)

1995-11-23 19:18:00# 120. lþ. 40.7 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur


[19:18]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég hafði í sjálfu sér ekki hugsað mér að flytja hér langt mál að þessu sinni en þó eru nokkur atriði sem mér finnst full ástæða til að taka aðeins nánar fyrir. Ég vil fyrst segja það félaga mínum Hjörleifi Guttormssyni út af orðum hans áðan um að orkuverð og leyndin að ósk stjórnar Landsvirkjunar, sem var reyndar ákveðin af mér fjarstöddum en ég hlíti að sjálfsögðu sem stjórnarmaður þrátt fyrir það, hafi verið ákveðin vegna innanlandsumræðunnar er rangt. Ég vil segja það fyrir mitt leyti að það væri mikið þægilegra fyrir mig að halda á málinu ef ég gæti rakið það í smáatriðum. Ég er hins vegar ekki í stöðu til þess vegna þeirrar leyndar sem stjórn fyrirtækisins hefur óskað eftir. En ég fullyrði að hver sá maður sem stendur fyrir þessum samningi út á verðlagið á orkunni eitt væri betur staddur í umræðu um málið ef tölurnar lægju á borðinu. Þetta er ekki verra en það. Og ég get líka sagt það fyrir mitt leyti við þá þingmenn sem telja ástæðu til að taka mark á því að ég hefði ekki staðið að þessu öðruvísi að ég gerði það með tiltölulega mjög góðri samvisku. Málið liggur þannig. Ég tel, eins og ég sagði í ræðu minni í dag að orkuverðið tryggi endurnýjunarkostnað og er yfir flýtingarkostnaði. Hitt er líka rétt að það er lágt af þeim ástæðum sem hér hafa verið raktar, m.a. í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Hérna eru 750 gwst. frá Blönduvirkjun sem menn fá ekkert fyrir eins og er. Og það er verið að draga inn í þessa mynd tiltölulega hagstæða orkuviðbót í ýmis orkuver landsins, m.a. Blönduvirkjun og fleiri. Það er út af fyrir sig alveg ljóst. En eftir sem áður er staðan þannig að hér er um að ræða tiltölulega ríflega stöðu fyrir Landsvirkjun að mínu mati og ég ætla bara að leyfa mér að nefna eina tölu í þessu sambandi. Hún er sú að ef við í dag værum með það verð sem gert er ráð fyrir að taki við að afsláttartímabilinu loknu þá væri verðið á kwst. 21,5 mill en er núna 17,5 mill samkvæmt þeim samningum sem liggja fyrir. Þessi nýi samningur nær ekki bara til stækkunarinnar heldur nær hann líka til orkunnar sem fer til gamla álversins eftir að þessu afsláttartímabili lýkur.

Ég er ekki að segja þetta, hæstv. forseti, til að miklast yfir þessari niðurstöðu því ég tel enga ástæðu til þess. Ég tel að margt sé þannig að samningsstaða okkar hafi að ýmsu leyti verið mjög erfið miðað m.a. við þær pólitísku væntingar sem menn hafa búið til hér í þjóðfélaginu langt umfram efni á undanförnum árum. En ég segi þetta vegna þess að ég held að það sé nauðsynlegt að menn geri sér alveg skýra grein fyrir því að það er ekki verið að leggja þetta fram og ekki verið að hafa hér uppi leynd af því að það séu einhverjir hlutir sem menn skammist sín fyrir. Nú kann það vel að vera að það sé misskilningur að setja á leyndarákvæði af hálfu t.d. stjórnar Landsvirkjunar. Það eru aðallega tvö atriði sem stjórnin er væntanlega að óska eftir að ríki trúnaður um. Það kann vel að vera að það sé vitleysa og það kann vel að vera að upp komi fljótlega allt það sem menn eru að þykjast leyna eins og sakir standa, það bara gerist einhvern tímann á næstunni, ég bara veit það ekki. En mér finnst að ég geti alla vega ekki sem einn úr þessum hópi rofið þann trúnað. Hitt skil ég alveg hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni og fleirum sem hér hafa talað að þetta er auðvitað ólánsstaða. Hún er óþægileg fyrir Alþingi en hún er líka óþægileg fyrir okkur sem erum í stjórninni og örugglega fyrir alla aðila málsins. Þess vegna finnst mér sjálfsagt að velta því fyrir sér hvort það er flötur á því að koma þessum upplýsingum betur á framfæri en gert hefur verið til þessa með einhverjum hætti.

Hæstv. iðnrh. hefur lýst því yfir að iðnn. fái öll gögn þessa máls og ég tel í rauninni að þar með sé það á ábyrgð þeirra sem þar eru hvernig þeir meðhöndla þau, m.a. gagnvart sínum þingflokkum. Þó þau séu ekki birt með upplestri eða í prentuðu formi úr þessum ræðustól þá tel ég að málið ætti að liggja þannig að þegar það kemur til 2. umr. þá eigi allir þingmenn, sem á annað borð hafa áhuga á að kynna sér það, að vera upplýstir um einstök atriði þessa máls. Og ég er alveg sannfærður um að þá komast menn að því að stjórn Landsvirkjunar var ekki að óska eftir þessari leynd vegna innanlandsumræðunnar.

Hitt er alveg rétt að þótt hæstv. iðnrh. og reyndar hæstv. umhvrh. líka segi að þetta sé ekki fordæmi þá getur auðvitað verið að þetta verði notað sem fordæmi. Ég meina að við vitum ekkert um það og það er engin trygging fyrir neinu í þessum efnum. Það eru dæmi þess að ríkisstjórnir hafi ákveðið að leggja út í stórfelldar virkjanir, t.d. jafnvel í atvinnubótaskyni. Ég nefni í því sambandi t.d. Quebec í Kanada þar sem er um að ræða verulegt magn af virkjunum þar sem menn hófu virkjunarframkvæmdir í atvinnubótaskyni og ákváðu síðan að selja orkuverðið nánast á útsölu alveg niður í 5 mill í dag. Auðvitað viðurkenni ég það og það sér hver maður að það getur verið hætta á því að stjórnvöld, mér liggur við að segja freistist til þess, í hrikalegu atvinnuástandi að gera eitthvað af þessu tagi. Mér er það algerlega ljóst. Ég tel að fordæmishættan í þessu máli sé ekki gagnvart erlendum fyrirtækjum heldur aðallega gagnvart innlendum pólitíkusum framtíðarinnar sem vegna erfiðs atvinnuástands telji sig jafnvel beygða til þess að ganga inn á þessa braut með mjög hæpnum hætti eins og menn hafa t.d. gert í Kanada og fleiri dæmi eru um.

Það hafa verið teknar saman fyrir mig í stjórn Landsvirkjunar upplýsingar um orkuverð til álvera í heiminum. Þar er meira og minna byggt á getgátum en þó eru þær upplýsingar býsna fróðlegar. Þar kemur fram að þetta hleypur alveg frá 5 mill á kwst. og rétt u.þ.b. sýnist mér og reyndar hef ég séð tölu sem er 30 mill á kwst. hjá Boneville Power Administration í Bandaríkjunum. Það er auðvitað margs konar verð og margs konar forsendur sem ákveða verð í þessu efni og þetta segir ég út frá ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. En miðað við það sem við erum vön þá held ég að málið liggi þannig að ekki sé hægt að telja þetta verð vont.

En ég endurtek að ég hef fyrirvara. Annar er þessi með fordæmið, sem ég vil að liggi fyrir sem pólitísk afstaða af minni hálfu hvort sem hún heldur í framtíðinni eða ekki. Það kæmi mér á óvart að hún héldi sem eitthvert heilagt orð en ég vil alla vega að það liggi fyrir að því er mig varðar. Hitt atriðið sem ég hef fyrirvara um er þessi stækkun í 200 þús. tonn sem er ekki búið að taka ákvörðun um af hálfu stjórnar Landsvirkjunar og um það hef ég pólitískan fyrirvara. Og mér finnst að það mál sé það stórt að þegar ég ber það saman t.d. við umhverfismálin og skattamálin þá mundi það í heild geta haft þau áhrif á það að atkvæði mitt hér í þessari virðulegu stofnun félli öðruvísi en það mundi hafa gert t.d. í stjórn Landsvirkjunar.

Þrátt fyrir þetta með fordæmið þá verð ég að segja að mér finnst það betra að hæstv. iðnrh. og hæstv. umhvrh. skuli hafa gefið þessar yfirlýsingar. Betra fyrir þjóðina inn í framtíðina, það er þá hægt að hanka þá á því ef þeir reyna að fara einhvern veginn öðruvísi í þessa hluti pólitískt. En mér finnst það heldur skára. (Gripið fram í.) Það er ekki nein trygging, nei. En þeir sögðu ,,ekki fordæmi`` án þess að ég ætli að fara að tala fyrir þá.

Síðan vil ég aðeins víkja að því sem fram kom í umræðum í dag hjá hv. þm., m.a. Sighvati Björgvinssyni, Ólafi Ragnari Grímssyni o.fl. hverjum þetta væri að þakka. Ég held því miður að þetta sé ekki þannig að pólitíkusarnir geti skreytt sig mikið með þessu máli til eða frá. Nema þeir vilji skreyta sig með að hafa tekið ákvörðun um virkjun Blöndu og hafa það þannig að allt of mikið sé af rafmagni sem ekki hefur verið hægt að selja. Þeir geta skreyt sig með því ef þeir vilja. En veruleikinn er sá að þegar þær aðstæður eru uppi að annars vegar er umframorka hjá Blönduvirkjun og hins vegar er álverð hækkandi í heiminum eftir að útsölunni á áli frá Rússlandi er lokið þá lenda menn þessu. Ég held að hlutirnir séu oft þannig að við þessir blessaðir pólitíkusar séum oft að skreyta okkur með hlutum sem við eigum ósköp lítið í. Það er í mesta lagi að menn séu kannski lítið til bölvunar. En oft er það þannig að það eru aðstæðurnar sem skrúfa hlutina saman. Það getur auðvitað skipt einhverju máli hvernig á þessu er tekið t.d. að því er varðar segjum umhverfismálin, ég tel að það skipti mjög miklu máli, en að því er varðar t.d. verðið á orkunni eins og hún er í dag þá ræðst þetta af aðstæðum sem eru ekki á okkar valdi. Og ég tel þess vegna enga ástæðu til þess að þakka hæstv. iðnrh. fyrir að hann hafi unnið vinnuna sína, hvorki núv. né heldur fyrrv. En ég man eftir iðnrh. sem hrökklaðist frá af því hann kom þessu ekki á á sínum tíma. Af því að það var búið að byggja upp svo miklar væntingar í kringum málið sem hann gat ekki risið undir þá fór hann til Finnlands. Þannig að ráðherrar sem ekki skila einhverju þó lítið sé fara til Finnlands. Það má kannski segja að það sé út af fyrir sig allt í lagi, hæstv. forseti, a.m.k. ef þeir gera ekki mjög mikla bölvun þar.

Ég ætla ekki heldur að ræða um atriði eins og þau sem fram komu hjá hæstv. iðnrh. varðandi iðnaðinn og þróun iðnaðarins. Það er ekki mál sem mér finnst ástæða til að fara hér rækilega út í. Það er alveg rétt að útflutningur iðnaðarvöru hefur aukist, t.d. hugbúnaðariðnaður. Útflutningsverðmæti hugbúnaðariðnaðar á sl. ári var 300 millj. kr. Það er talsvert mikil aukning, líklega 50% aukning eða meira frá árinu þar á undan. Og það er nú eiginlega óendanleg aukning ef maður tekur fimm eða sjö ára tímabil. Og það er alveg augljóst mál að svona snillingar eins og fjölmargir af okkar vísindamönnum, að ekki sé minnst á galdrakarlana í Oz sem hafa gert garðinn frægan, er fólk sem er að skila okkur gífurlegum verðmætum. Við eigum að gera allt sem hægt er til að styðja við bakið á þessu fólki, skapa aðstæður til þess. Um það er full samstaða. Það er enginn ágreiningur um það í þessari virðulegu stofnun.

[19:30]

Hvort Framsókn skapar 12 þús. störf til aldamóta, ég er viss um að hún gerir það ekki. Framsókn gerir það ekki. Hvort þjóðin gerir það, það er svo aftur annað mál. Vonandi verður það þannig. Vonandi spillir Framsókn ekki fyrir því. En að Framsókn skapi störf, það er alveg fjarstæðukennt. Í besta falli er þetta þannig að menn hjálpa kannski aðeins til. Það er hægt með ýmsum áherslum, t.d. áhættulánasjóði eða t.d. með því að efla vísindi og rannsóknir með skipulegum hætti. Þá uppskera menn af því í framtíðinni. En að menn skili einhverju svona eftir einhverjum pólitískum ákvörðunum --- það var þannig, en það er það ekki lengur. Þess vegna finnst mér ekki rétt að tala um að þetta mál marki tímamót í sögu þjóðarinnar, eins og hæstv. iðnrh. nefndi hér áðan. Þótt ég skilji vel að hann langi til að marka tímamót, þá eru þau nú ekki komin. Það verður að gera það með einhverjum öðrum hætti.

Varðandi ýmis svör sem fram komu, m.a. í sambandi við Hafnarfjörð, þá þakka ég fyrir þau. Þau skýrðu það mál fyrir mér. Ég hef nefnt hér eina tölu um það hvert verðið væri, ef við fylgdum núna endanlegu formúlunni. Það væri 21,5 mill kwst. Ég ætla að nefna tvær tölur í viðbót. Það eru heildatekjur af þessum samningi. Það er talað um að hann mundi gefa, miðað við spár, 70 millj. dollurum meira vegna þess að hann nær til gamla álsversins líka. Bara sá veruleiki að gamla álverið kemur inn í þessa mynd, skilar þjóðinni 70 millj. dollurum í viðbót frá því sem ella væri. Munurinn sýnist mér vera liðlega 70 millj. dollara á tímabilinu. Það er í raun og veru það sterka við samninginn eins og hann liggur fyrir að mínu mati að hann dregur gamla álverið og gamla samninginn inn í þessa mynd að því er varðar orkusöluna.

Það er út af fyrir sig hægt að fjalla með ýmsum hætti um umframorkuna, eins og fram kom hjá hv. 4. þm. Austurl. Ég tel að það megi margt um það segja, en auðvitað er ekki heppilegt eða ekki þægilegt að vera með fjármagnskostnað af kannski 400--800 gwst. orkuframleiðslu liggjandi á bakinu á fyrirtækinu, Landsvirkjun. Því verður ekki neitað að það er erfitt. Það er náttúrlega af þeim ástæðum sem menn ákveða að hrista þennan samning áleiðis eins og við erum að gera hér.

Hæstv. iðnrh. hefur svarað þessu varðandi verð til almenningsveitnanna. Ég vil bara bæta því við að hér er um að ræða 3% árlega raunlækkun sem þetta getur gefið, ef menn vilja. Við eigum eftir að ákveða það og það er auðvitað umhugsunarvert hvort orkuverð á endilega að vera miklu lægra en það er í dag. Það er svo annað mál sem miðast við umhverfisforsendur, efnahagsforsendur og allt það. Menn eru að tala um 3% lækkun hér um skeið, eftir að meðalverð til almenningsrafveitna hefur verið að lækka stöðugt núna um nokkurt árabil á föstu verðlagi. Hér er ég með yfirlit frá Landsvirkjun frá 1971 til 1995 þar sem fram kemur að allt frá árinu 1986 hefur verið um að ræða verulega lækkun, auðvitað að nokkru í takt við við lækkun á olíumörkuðum heimsins, en lækkun engu að síður.

Ég ætlaði aðeins að víkja að því sem hér hefur verið talað um að víst er það áhyggjuefni hvað Alusuisse verður stór viðskiptaaðili Landsvirkjunar við þennan samning. Því verður ekki neitað. Hann verður geysistór og að sumu leyti óþægilega stór. Í því sambandi hefur orkuframleiðslan verið nefnd, eða öllu heldur orkukaup fyrirtækisins, hversu stórt hlutfall þau eru af heildarorkusölu Landsvirkjunar. Það eru milli 60 og 65% þegar þessi samningur verður kominn á. En það segir þó ekki allt. Peningar eru þar t.d. mun stærra mál. Það kemur í ljós að t.d. á þessu ári borgar Ísal um 22,5% af öllum tekjum Landsvirkjunar. En á árinu 2014, þegar samningurinn er að fullu kominn til framkvæmda, þá er þetta hlutfall orðið um 37%. Það er mjög hátt. Þetta er í rauninni ekkert þægilegt og þegar fyrirtækið hefur til viðbótar aðgang að stækkun upp á 38 þús. tonna ársframleiðslu, þá segir sig sjálft að þetta mál er ekki að öllu leyti nægilega gott. M.a. af þeim ástæðum hafa menn verið að ræða við aðra, án þess að hafa tekið neina ákvörðun.

Ég endurtek að ég mun leggja mjög mikla áherslu á að málið fái eins vandaða meðferð og mögulegt er í viðkomandi þingnefndum og ég er viss um að þegar að málinu kemur í 2. umr. hafa flestir þingmenn sem vilja það, fengið þær upplýsingar sem þeir telja óhjákvæmilegar til að taka afstöðu í málinu. Að lokum vil ég endurtaka að leyndin stafar ekki af því að menn vilji fela eitthvað, heldur vegna þess að menn voru vinsamlegast beðnir um það. Og ég vil ítreka að það væri betra að losna við það.