Siglingastofnun Íslands

Mánudaginn 27. nóvember 1995, kl. 15:07:05 (1285)

1995-11-27 15:07:05# 120. lþ. 41.3 fundur 173. mál: #A Siglingastofnun Íslands# frv., 174. mál: #A sameining Vitastofnunar, Hafnamálastofnunar og Siglingamálastofnunar# frv., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur


[15:07]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um Siglingastofnun Íslands og í leiðinni fyrir frv. á þskj. 217 sem tengist því frv., frv. til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna sameiningar Vitastofnunar Íslands, Hafnamálastofnunar ríkisins og Siglingamálastofnunar ríkisins í Siglingastofnun Íslands.

Með frv. um Siglingastofnun Íslands er lagt til að Vita- og hafnamálastofnunin og Siglingamálastofnun ríkisins verði sameinaðar í eina stofnun sem hefur verið valið heitið Siglingastofnun Íslands.

Tilgangurinn með fyrirhugaðri sameiningu þessara stofnana er að styrkja þá starfsemi sem fer fram á vegum þeirra og einnig þegar til lengri tíma er litið að ná fram sparnaði og aukinni hagræðingu í rekstri.

Samgrn. hefur haft þetta mál til athugunar í nokkur ár og reyndar hafa fleiri komið að því verki. Það hefur verið samdóma álit allra sem til hefur verið leitað að þessi sameining væri heppileg og nú þykir rétti tíminn til að hrinda henni í framkvæmd. Báðar stofnanirnar búa yfir sérþekkingu og reynslu sem munu nýtast betur og spara tíma þegar við færum verkefnin saman. Það á að gefa svigrúm til að efla rannsóknir og þróunar- og fræðslustarf í öryggismálum sjófarenda og víkka sjóndeildarhringinn með öflugu samstarfi og samvinnu við erlenda aðila og hliðstæðar stofnanir í nálægum löndum.

Höfuðtilgangurinn með sameiningunni er að byggja upp sterka stofnun með breiðar undirstöður til hagsbóta fyrir alla þá sem þjónustunnar njóta. Samkvæmt frv. fer samgrh. með yfirstjórn siglinga-, hafna- og vitamála en Siglingastofnun Íslands fer með framkvæmd þeirra. Forstjóri Siglingastofnunar Íslands verður skipaður af ráðherra að fenginni umsögn hafnaráðs og siglingaráðs. Framkvæmdastjórar deilda verða einnig ráðnir af ráðherra að fengnum tillögum forstjóra. Annað starfsfólk verður ráðið af forstjóra.

Í 3. gr. frv. eru tilgreind verkefni Siglingastofnunar Íslands sem eru þau sömu og þessar þrjár stofnanir hafa haft. Frv. gerir ráð fyrir tveim ráðum, hafnaráði og siglingaráði er skulu vera ráðgefandi fyrir ráðherra og forstjóra Siglingastofnunar.

Í tengslum við þetta frv. er annað frv. á þskj. 217 eins og ég vék að áðan þar sem fjallað er um breytingar á ýmsum lögum eins og þar er upp talið og takmarkast breytingarnar við það sem óhjákvæmilegt er í kjölfar stofnunar Siglingastofnunar Íslands. Breytingarnar skýra sig sjálfar og ég sé ekki ástæðu til að fjalla um þær sérstaklega í framsögu.

Ég sé ekki, herra forseti, ástæðu til að rekja einstakar greinar frv. nánar og legg til að frv. verði báðum vísað til 2. umr. og hæstv. samgn.